Enn einn baráttusigurinn

Birkir Benediktsson sækir að vörn Selfyssinga í gærkvöld.
Birkir Benediktsson sækir að vörn Selfyssinga í gærkvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Afturelding tyllti sér á topp Olís-deildar karla í handknattleik í gærkvöld með eins marks sigri á Íslandsmeisturum Selfoss í háspennuleik að Varmá í Mosfellsbæ, 32:31.

Leikmenn Aftureldingar áttu lokasprettinn í leiknum eftir að hafa átt undir högg að sækja lengst af, ekki síst eftir afleitan upphafskafla þar sem gestirnir skoruðu fimm af fyrstu sex mörkum leiksins. Selfoss var þremur mörkum yfir í hálfleik, 17:14.

Afturelding hefur þar með 12 stig í efsta sæti deildarinnar, eins og Haukar, en markahlutfall Aftureldingar hagstæðara. Liðin mætast í næstu umferð í uppgjöri toppliðanna að Varmá á sunnudagskvöld. Víst er að þá mun svo sjóða á keipum.

Haukur Þrastarson var allt í öllu í liði Selfoss eins og stundum áður. Mosfellingum gekk illa að ráða við ungstirnið sem skoraði að vild og dreifði út stoðsendingum á samherjana eins og konfektmolum á hátíðisdögum. Þegar á leið síðari hálfleik breytti Mosfellingar varnarleik sínum. Gunnar Kristinn Þórsson var settur til höfuð Hauki. Breytingin skilaði tilætluðum árangri. Um leið lifnaði yfir Arnór Frey Stefánssyni markverði Aftureldingar sem varði afar mikilvæg skot úr opnum færum. Hinum megin vallarins fór Birkir Benediktsson hamförum og raðaði mörkum á Selfossmarkið. Birkir átti enn einn stórleikinn á leiktíðinni og hlýtur hafa enn einu sinni bankað hressilega á útidyrnar hjá landsliðsþjálfaranum.

Markverðir Selfoss náðu sé ekkert á strik og vörðu vart skot í síðari hálfleik. Munar svo sannarlega um minna í jöfnum leik. Sveiflan snerist yfir með Aftureldingarliðinu sem náði í tvígang tveggja marka forskoti á síðustu þremur mínútunum með skipulögðum og öguðum leik og um leið rann sigurinn Selfyssingum úr greipum.

Sjá allt um Olís-deildina á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert