Gísli úr leik fram að EM

Gísli Þorgeir Kristjánsson þarf að bíða á hliðarlínunni næstu tvo …
Gísli Þorgeir Kristjánsson þarf að bíða á hliðarlínunni næstu tvo mánuði. Ljósmynd/Kiel

Landsliðsmaðurinn Gísli Þorgeir Kristjánsson verður frá keppni í að minnsta kosti átta vikur eftir að hafa farið úr axlarlið í stórleiknum með Kiel gegn Rhein-Neckar Löwen í þýsku 1. deildinni í handbolta í gærkvöld.

Þetta kemur fram á heimasíðu Kiel en þar með er ljóst að þessi tvítugi leikstjórnandi spilar ekki meira á árinu 2019. Ekki er hægt að útiloka að hann verði búinn að ná sér fyrir Evrópumótið sem hefst 10. janúar en ljóst er að meiðslin setja að minnsta kosti stórt strik í reikninginn upp á möguleika Gísla að gera að komast á mótið.

Gísli var áður meiddur í öxl í langan tíma eftir byltu sem hann fékk í úrslitaleik ÍBV og FH á Íslandsmótinu í fyrravor, en hann fór í aðgerð á öxlinni eftir HM í byrjun þessa árs.

„Gísli var nýbúinn að ná að komast af stað aftur eftir axlarmeiðsli á HM og var mikilvægur í leiknum við Löwen, og að hann skuli meiðast aftur er gríðarlega svekkjandi fyrir hann og Kiel,“ sagði Viktor Szilagyi, framkvæmdastjóri þýska félagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert