Viljum vera í efri hlutanum

Björgvin Þór Hólmgeirsson skoraði 10 mörk fyrir ÍR gegn ÍBV.
Björgvin Þór Hólmgeirsson skoraði 10 mörk fyrir ÍR gegn ÍBV. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er alltaf gott að vinna, ekki síst eftir þá brekku sem við höfum verið í síðustu leiki,“ sagði Björgvin Þór Hólmgeirsson, leikmaður ÍR, sem fór á kostum í sigrinum á ÍBV í Olís-deild karla í handknattleik í Austurbergi í kvöld. Björgvin Þór skoraði 11 mörk og var allt í öllu í sóknarleik ÍR, ekki síst í síðari hálfleik þegar leiðir liðanna skildu. Með sigrinum komst ÍR upp í annað sæti, a.m.k.í bili, og batt um leið enda á þriggja leikja taphrinu.

„Eyjamenn voru laskaðir að þessu sinni þar sem meðal annars vantaði Fannar Þór og Theodór. En þeir hafa marga góða leikmenn. Við erum ánægðir með okkar leik og ekki síst að með honum þá höldum við stöðu okkar í efri hluta deildarinnar, þar sem við viljum vera,“ sagði Björgvin Þór glaður í bragði.  „Það hefði ekki litið vel út hjá okkur hefðum við tapað.“

Björgvin Þór vildi lítið gera út eigin stórleik. Hann sagði sóknarleik ÍR hafa gengið vel, ekki síst í síðari hálfleik. Liðinu hafi tekist að opna vörn ÍBV hvað eftir annað. „Þegar Eyjavörnin smellur ekki saman þá opnast hún oft illa eins og að þessu sinni.

Við verðum bara að halda okkar striki. Næst mætum við Aftureldingu og halda okkur í efri hlutanum. Þar vill maður vera,“ sagði Björgvin Þór Hólmgeirsson, stórskytta ÍR-inga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert