Aðalsteinn hættir hjá Erlangen í sumar

Aðalsteinn Eyjólfsson á hliðarlínunni.
Aðalsteinn Eyjólfsson á hliðarlínunni.

Aðalsteinn Eyjólfsson hættir sem þjálfari þýska handknattleiksliðinu Erlangen í sumar þegar samningur hans við félagið rennur út. 

Félagið greinir frá þessu á heimasíðu sinni í dag. Ákveðið hefur verið að við starfi Aðalsteins taki Michael Haaß sem nú er fyrirliði liðsins. 

Erlangen er í 12. sæti 1. deildarinnar og hefur siglt lygnan sjó undir stjórn Aðalsteins sem tók við á fyrri hluta tímabilsins 2017-2018. Hann gerði síðar nýjan samning eða í janúar á þessu ári sem gildir fram á næsta sumar eins og áður segir. 

Aðalsteinn hefur verið lengi í Þýskalandi frá 2008. Hann þjálfaði áður Hütten­berg og fór liðið þá upp um tvær deildir á tveimur árum. Þar áður eða frá 2010-2014 var hann hjá Eisenach. Ennfremur stýrði hann Kassel frá 2008-2010. 

mbl.is