Gerðum allt sem við gátum

Ólafur Guðmundsson með boltann í dag.
Ólafur Guðmundsson með boltann í dag. Ljósmynd/Einar Ragnar Haraldsson

Ólafur Andrés Guðmundsson var markahæsti leikmaður Íslands í 28:31-tapi gegn Noregi á EM í handbolta í dag. Ólafur skoraði sex mörk, en það dugði ekki til gegn sterku norsku liði sem skoraði sjö fyrstu mörkin. 

„Við lendum snemma mikið undir og þurftum að elta. Það er erfitt, en við héldum áfram allan tímann og gáfumst ekki upp. Því miður komumst við ekki nógu nálægt þeim til að gera þetta að leik í lokin. Við gerðum allt sem við gátum,“ sagði Ólafur í samtali við RÚV. 

Hann á erfitt með að útskýra hvað gerðist í byrjun. „Við þurfum að kíkja á það. Það var of mikið að hleypa þeim svona langt á undan okkur. Þeir eru það góðir að þeir stjórna leiknum það sem eftir er.“

Ísland mætir Svíþjóð í lokaleik sínum á morgun, en hvorugt liðið á möguleika á að ná sæti í undanúrslitum. 

„Við gáfum okkur alla í þetta og keyrðum þetta alla leið. Við tökum þetta með okkur og við þurfum að læra af þessu. Það er leikur á morgun og við verðum tilbúnir í hann,“ sagði Ólafur við RÚV. 

mbl.is