Hvílir lykilmenn gegn Slóvenum

Sander Sagosen skýtur að marki Íslands í leiknum í gærkvöld.
Sander Sagosen skýtur að marki Íslands í leiknum í gærkvöld. AFP

Christian Berge, landsliðsþjálfari Norðmanna í handbolta, segist ætla að hvíla lykilmenn í sínu liði í dag þegar norska liðið mætir Slóvenum í lokaumferð milliriðils Evrópukeppninnar í Malmö.

Eftir úrslit gærdagsins þegar Noregur vann Ísland 31:28 og Ungverjaland tapaði 18:24 fyrir Svíþjóð eru Norðmenn komnir í undanúrslitin en Slóvenar og Ungverjar berjast um að fylgja þeim þangað.

Það er því vatn á myllu Slóvena ef menn á borð við Sander Sagosen hafa hægt um sig í leiknum gegn þeim í dag.

„Við eigum meiri möguleika í undanúrslitunum eftir því sem við erum ferskari og höfum náð betri hvíld. Þetta þýðir að við munum skipta leiktímanum meira á milli manna í dag. Við sjáum til hvort við hvílum einhverja einstaka leikmenn alveg,“ sagði Berge og vildi ekki svara því beint hvort Sagosen yrði látinn sitja alveg hjá í leiknum.

Sagosen er bæði markahæsti leikmaður mótsins með 51 mark og sá sem hefur átt flestar stoðsendingar, 39 talsins.

Leikur Noregs og Slóveníu hefst klukkan 17.15 en þá gætu Slóvenar þegar verið komnir í undanúrslitin, fari svo að Ungverjum takist ekki að sigra Portúgala í fyrsta leik dagsins.

mbl.is