Aalborg með átta stiga forskot

Janus Daði Smárason skoraði þrjú mörk og gaf tvær stoðsendingar …
Janus Daði Smárason skoraði þrjú mörk og gaf tvær stoðsendingar í kvöld. Ljósmynd/Einar Ragnar Haraldsson

Íslendingarnir Janus Daði Smárason og Ómar Ingi Magnússon stigu báðir upp á mikilvægu augnabliki þegar lið þeirra Aalborg vann tveggja marka heimasigur gegn Holstebro í toppslag dönsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik í kvöld. Leiknum lauk með 23:21-sigri Aalborgar en Íslendingarnir skoruðu báðir þrjú mörk í leiknum.

Holstebro byrjaði leikinn betur og komst í 3:0. Aalborg vann sig inn í leikinn og náði þriggja marka forskoti. Holstebro kom til baka og leiddi með tveimur mörkum í hálfleik, 12:10. Aalborg var með frumkvæðið í seinni hálfleik en þegar þrjár mínútur voru til leiksloka tókst Holstebro að jafna metin í 21:21.

Aalborg brunaði í sókn og Ómar Ingi Magnússon kom þeim yfir, 22:21. Ómar Ingi bætti svo öðru marki, mínútu fyrir leikslok, og innsiglaði þar með sigur Aalborgar en Ómar Ingi gaf sex stoðsendingar í leiknum og Janus Daði Smárason þrjár. Aalborg er með 35 stig og átta stiga forskot á Holstebro á toppi deildarinnar eftir tuttugu umferðir.

mbl.is