Ömurleg niðurstaða mótanefndar og HSÍ

Daníel Wale, leikmaður Harðar, sækir að marki Selfoss U í …
Daníel Wale, leikmaður Harðar, sækir að marki Selfoss U í leik liðanna í 2. deildinni í vetur. Ljósmynd/BB.is

Handknattleiksdeild Harðar frá Ísafirði er afar ósátt með vinnubrögð HSÍ og mótanefndar sambandsins vegna eftirmála eftir bikarleik liðsins gegn Þór frá Akureyri sem fram fór í september á síðasta ári. Leikurinn fór fram á Ísafirði, heimavelli Harðar, en Þórsarar unnu 39:16-sigur í leiknum.

Í reglum HSÍ um bikarkeppni sambandsins er kveðið á um að réttmætur ferðakostnaður skuli skiptast á milli liða og leikur gerður upp innan sjö daga. Á Facebook-síðu Harðar segir félagið að Þórsarar hafi sent frá sér reikning upp á rúmlega 800.000 krónur. Í yfirlýsingu Harðar segir félagið hafi aldrei þurft að greiða hærri upphæð en 140.000 krónur í gegnum tíðina og mismunurinn því afar mikill.

Það er ágætt að það komi fram að Hörður spilaði leik við Þór U í janúar á útivelli. Akstur til Akureyrar, gisting og akstur heim kostaði 120.000 kr eða rétt tæpum 480.000 kr. minna en ferðakostnaður Þórs til Ísafjarðar. Áhugasömum skal bent á að um er að ræða jafnlanga leið frá Akureyri til Ísafjarðar eins og frá Ísafirði til Akureyrar,“ segir meðal annars í tilkynningu Harðar.

Handboltinn er sjálfum sér verstur. Ömurleg niðurstaða mótanefndar sem er staðfest af stjórn HSÍ. Svona vex handboltinn ekki. Svona deyr hann. Hafið skömm fyrir þeir sem tóku ákvörðun um þetta hjá Þór og mótanefnd,“ segir ennfremur í tilkynningu Harðar á Facebook en yfirlýsinguna má lesa í heild sinni hér.

Úr leiknum umrædda á Ísafirði þann 30. september.
Úr leiknum umrædda á Ísafirði þann 30. september. Ljósmynd/Facebook

Sorglegt mál frá A til Ö

„Það voru leikir á helginni báðu megin, annars vegar 27. september í deildinni og svo 30. september í bikarnum og því ákváðum við að fljúga í þennan umrædda leik,“ sagði Þorvaldur Sigurðsson, formaður handknattleiksdeildar Þórsarar í samtali við mbl.is í kvöld aðspurður af hverju Þórsarar hefðu ákveðið að fljúga í leikinn.

Þorvaldur segir að sú umræða sem sé í gangi á Facebook-síðu Handknattleiksdeildar Harðar sé á villigötum og harmar að málið sé komið á  þann stað sem það er í dag.

„Ég vil satt best að segja ekki vera tjá mig of mikið um þetta mál þar sem að mér finnst að þetta sé mál sem eigi að vera leyst innan sérsambandsins. Við fáum ákveðnar upplýsingar fá mótastjóra um það hvernig eigi að gera upp bikarleikinn og við fylgdum þeim fyrirmælum. Við létum vita með hvaða hætti við myndum ferðast í leikinn með góðum fyrirvara og það vissu allir af því, bæði Hörður og mótnefnd HSÍ. Þær tölur sem hefur verið talað um í aðdraganda málsins eru heldur ekki réttar og það þarf að koma fram.“

Þorvaldur er einnig vonsvikinn yfir vinnubrögðum Harðar í málinu og telur best að HSÍ grípi inn í til þess að finna farsæla lausn.

„Það kann ekki góðri lukku að stýra að ætla leysa svona mál á samfélagsmiðlum eða í fjölmiðlum. Þetta mál hefur verið í gangi síðan í desember en það má alveg koma fram að Hörður frá Ísafirði vildi til að mynda ekki rukka inn á leikinn, eitthvað sem hefði lækkað kostnaðinn við leikinn umtalsvert. Fyrir mér er þetta mál fyrst og fremst sorglegt, fyrir alla sem að því standa, og HSÍ þarf að bregðast við til þess að fá lausn í málið,“ bætti Þorvaldur við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert