Ýmislegt hérna sem hefði ekki verið leyft á Íslandi

Valsmenn verjast.
Valsmenn verjast. Ljósmynd/Baldur Þorgilsson

Róbert Aron Hostert var þreyttur en gríðarlega sáttur þegar mbl.is heyrði í honum eftir að Valsarar slógu út tyrkneska liðið Beykoz í Istanbúl í Áskorendabikar Evrópu í handknattleik í dag. „Ég er virkilega ánægður með þetta, það er alltaf erfitt að spila tvo leiki á tveimur dögum. Þetta tekur vel á skrokknum og maður er bara ógeðslega ánægður að klára þetta.“

Val­ur vann fyrri leik­inn í gær 26:25 og leikinn í dag 31:30 og ein­vígið því sam­an­lagt 57:55, en báðir leik­ir fóru fram í tyrk­nesku borg­inni. Róbert segir Tyrkina hafi verið betri en hann átti von á en þeir voru líka talsvert grófir og komust upp með það.

„Við erum að mæta stórum, þungum leikmönnum og það kom mér eiginlega á óvart hversu góðir þeir voru, betri en ég hélt,“ sagði Róbert og bætti við að Valsarar áttu í erfiðleikum með að undirbúa sig fyrir leikina, fengu lítið myndefni fyrir einvígin og fengu svo ekki leikinn frá því í gær. Engu að síður sýndu Valsarar mikinn karakter til að komast í 8-liða úrslitin.

Tvær mínútur fyrir hnefahögg

„Við fengum eitthvert smá myndefni en svo fengum við ekki leikinn í gær, það var eitthvert smá vesen á þessu. Við lendum undir og maður heyrði ekki í einum eða neinum í höllinni. Línan í leiknum var svo frábrugðin því sem maður þekkir. Maður fékk hnefahögg og það var kannski gefið tvær á það, hinum megin voru svo tvær á allt og við vorum mikið einum færri. Þetta var skrítin lína.“

„Þeir eru með tvo sem eru yfir tveir metrar og yfir hundrað kíló og þeir voru ekkert eðlilega ólöglegir. Svo heyrði maður ekkert í höllinni, mikil stemning og svo var þulurinn í ham, þetta hefði aldrei verið leyft á Íslandi. Það var ýmislegt hérna sem hefði ekki verið leyft á Valur - ÍR eða eitthvað. Þetta var ekki nálægt línunni sem er heima.“

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem íslensk lið lenda í því að spila umdeilda Evrópuleiki. Róbert þekkir það sjálfur frá því hann var í ÍBV og heimsótti Turda í Rúmeníu í umdeildu einvígi en Valsarar spiluðu ári áður einmitt líka við Turda undir enn umdeildari kringumstæðum.

Í þessu fyrir svona ævintýri

„Maður þekkir þetta svo sem, frá því maður spilaði Evrópuleiki úti með ÍBV og þeir hérna þekkja þetta líka sem hafa spilað í þessari keppni. Fyrstu mínútur reynir maður að læra inn á línuna en svo er stundum bara ekkert hægt að læra inn á hana, maður veit ekkert hvað er í gangi.“

„Við sýnum svo bara geggjaðan karakter, það voru allir að leggja sig fram, hver einasti maður, þetta var ákveðin seigla. Við erum bara geggjað ánægðir og virkilega þreyttir, þetta eru tveir leikir á tveimur dögum og svo leikur strax á miðvikudaginn eftir erfitt 12 tíma ferðalag. En þetta þéttir hópinn og er gaman, við erum sáttir,“ sagði Aron og bætti við að fyrir einmitt svona ævintýri væru menn í handbolta yfir höfuð.

„Við erum í þessu fyrir einmitt svona ævintýri, þetta er rosalega gaman og það má ekki gleyma því.“

Róbert Aron Hostert.
Róbert Aron Hostert. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert