Tíu íslensk mörk og landsliðsmarkvörðurinn varði tíu

Arnar Freyr Arnarsson nýtti vel færi sín fyrir GOG í …
Arnar Freyr Arnarsson nýtti vel færi sín fyrir GOG í kvöld. AFP

Íslendingarnir í liðum SönderjyskE og GOG skoruðu tíu mörk í viðureign liðanna í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik í kvöld auk þess sem landsliðsmarkvörðurinn ungi Viktor Gísli Hallgrímsson varði 10 skot.

GOG vann sannfærandi útisigur, 33:26, þar sem línumaðurinn Arnar Freyr Arnarsson skoraði fimm mörk úr jafnmörgum skotum. Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði ekki fyrir liðið en Viktor Gísli varði 10 skot eins og áður sagði og var með 30,3 prósent markvörslu í leiknum.

Arnar Birkir Hálfdánsson skoraði þrjú mörk fyrir SönderjyskE og Sveinn Jóhannsson tvö.

GOG er í þriðja sæti deildarinnar með 28 stig en fyrir ofan eru Aalborg með 37 stig og Tvis Holstebro með 29.

SönderjyskE er í 8. sætinu með 20 stig og í hörðum slag um að komast í úrslitakeppni átta efstu liðanna um danska meistaratitilinn.

mbl.is