Þetta er ögrandi verkefni

Guðmundur Þórður Guðmundsson er orðinn þjálfari Melsungen í Þýskalandi.
Guðmundur Þórður Guðmundsson er orðinn þjálfari Melsungen í Þýskalandi. mbl.is/RAX

„Það var mjög stuttur aðdragandi að þessu. Þetta kom eiginlega bara í ljós í gær,“ sagði Guðmundur Guðmundsson í samtali við mbl.is í dag. Guðmundur var í dag ráðinn þjálfari Melsungen á samningi sem gildir út tímabilið. Mun hann þjálfa þýska liðið meðfram þjálfun íslenska karlalandsliðsins. 

„Þetta er verkefni í tiltekinn tíma og þetta er ögrandi verkefni. Þetta er gott lið sem er komið í undanúrslit í þýska bikarnum og tekur þar þátt í Hamburg. Þetta lið er í sjöunda sæti, stigi á eftir Rhein-Neckar Löwen.

Þetta er mjög öflugt félag og þótt þetta sé bara í tiltekinn tíma, þá er gott að endurnýja kynnin við þýsku Bundesliguna. Þetta var þannig lagað auðveld ákvörðun, þar sem ég hef alltaf verið opinn fyrir ögrandi verkefnum,“ sagði Guðmundur um félagið og ráðninguna. 

Eitt af verkefnum Guðmundar er að ná stöðuleika í liðið, sem hefur unnið góða sigra, en tapað illa þess á milli í vetur. 

Dreymir um að fara langt í bikarnum

„Gengið hjá liðinu hefur verið misjafnt og rokkað. Þeir hafa unnið frábæra sigra, en svo dottið niður inn á milli. Þeir unnu Rhein-Neckar Löwen á útivelli í kringum áramótin en svo hafa þeir tapað fyrir liðum sem þeir ættu að vinna.“

Melsungen er í baráttunni í þýsku deildinni, þýska bikarnum og EHF-bikarnum. Það verður því nóg um að vera hjá Guðmundi á næstu vikum. 

„Auðvitað dreymir menn um að fara eins langt og hægt er í bikarnum, þar sem liðið er komið í undanúrslit. Evrópukeppnin byrjar illa, en það eru enn þá möguleikar að komast áfram þar. Fyrsti leikurinn sem ég stýri er gegn Bjerringbro-Silkeborg. Ég þarf að setja mig inn í mjög mikið af hlutum á stuttum tíma.“

Guðmundur hefur ekkert velt því fyrir sér hvort hann gæti verið áfram með liðið, eftir leiktíðina. „Við byrjum á þessu, það er ekkert verið að ræða lengra,“ sagði Guðmundur. 

mbl.is