Áfall fyrir Selfyssinginn í Póllandi

Haukur Þrastarson á ferðinni á EM í byrjun árs.
Haukur Þrastarson á ferðinni á EM í byrjun árs. Ljósmynd/Ein­ar Ragn­ar Har­alds­son

Haukur Þrastarson, landsliðsmaður í handbolta, verður frá keppni næstu þrjá mánuði eða svo vegna meiðsla. Haukur ristarbrotnaði á dögunum, en hann er nýkominn út til Póllands þar sem hann gerði þriggja ára samning við stórliðið Kielce. 

„Ég er með álagsbrot í ristinni og fór í aðgerð um daginn þar sem pinni var settur í fótinn. Nú er ég bara að bíða eftir því að geta byrjað að æfa aftur,“ sagði Haukur í samtali við Vísi. Ég hugsa að þetta verði líklegast þrír mánuðir,“ bætti hann við. 

„Þetta er mjög leiðinlegt. Ég fór í aðgerð heima fyrir tveimur vikum og kom út síðasta laugardag. Við erum búin að fá íbúðina og erum að koma okkur ágætlega fyrir,“ sagði Haukur ennfremur við Vísi. 

Haukur var markahæsti leikmaður Olísdeildarinnar áður en tímabilinu var aflýst vegna kórónuveirunnar. Sigvaldi Guðjónsson, félagi hans hjá íslenska landsliðinu, skrifaði einnig undir samning við Kielce fyrir tímabilið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert