Björgvin ætlar sér að spila í tíu ár í viðbót

Björgvin Páll Gústavsson er hvergi nærri hættur.
Björgvin Páll Gústavsson er hvergi nærri hættur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Handboltalandsliðsmaðurinn Björgvin Páll Gústavsson er nýjasti gesturinn í Podcasti Sölva Tryggvasonar. Sölvi skrifaði fyrir ári síðan uppgjörsbók Björgvins, þar sem Björgvin lýsti andlegu og líkamlegu hruni sínu, þar sem hann meðal annars fékk ofsakvíðakast á miðju stórmóti í handbolta.

Björgvin hefur undanfarið eitt og hálft ár unnið hörðum höndum að því að koma líkamskerfinu sínu í betra stand. Hann var í mörg ár með allt of lágt testósterón, sem hann tengir við sístreituástand til margra ára. Eftir að hafa lagt allt í sölurnar við að skilja ástand sitt og koma því í lag segist Björgvin sjá gríðarlegan mun og hann segist meðal annars hafa tvöfaldað testósterón-magnið í líkama sínum með öndunaræfingum, breyttri næringu og betri hvíld. 

Hann segist sannfærður um að hann geti spila 10 ár í viðbót eftir að hann tók líkamskerfið í gegn og talar þar sérstaklega um öndun og mikilvægi þess að taka hana í gegn.

„Það er í raun fáránlegt að íþróttalið á hæsta stigi séu ekki öll með sérstakan öndunarþjálfara," segir Björgvin Páll, sem núna er byrjaður að vinna með þó nokkrum íþróttamönnum. Í viðtalinu við Sölva segir Björgvin líka skemmtilegar sögur frá Ólympíuleikunum 2008, þegar Ísland vann silfurverðlaun. Fyrirliðinn Ólafur Stefánsson fór þar hamförum.

„Fyrir einn leikinn var hann búinn að taka með sér hraunmola frá Íslandi og fyrir leik tekur hann okkur í hring, þar sem hann tekur hraunmolann og segir við okkur að þarna séu ræturnar og svo tekur hann lýsi og hellir yfir hraunmolann og byrjar að æsa upp stemmninguna og svo var allt í einu fullt af mönnum komnir með lýsi á puttana og lýsi út um allt á gólfið!”

Björgvin gefur lítið fyrir þær sögur að Óli Stef sé orðinn kolruglaður „Furðufuglinn Óli sem margir þekkja núna, hann er bara að reyna að gleðja okkur og fólk þarf að átta sig á því. Það er ekkert nema jákvætt á bakvið þetta. Þegar hann var kominn með englavængi var alltaf verið að spyrja mig hvort það væri í lagi með Óla, þannig að ég ákvað að senda honum skilaboð og spurði hvort það væri í lagi með hann. Ég mun fyrst hafa áhyggjur af Óla þegar hann verður kominn í gallabuxur og pólóbol.”

Í viðtalinu fara Sölvi og Björgvin yfir sögur í kringum landsliðið, barnæskuna, leiðina út úr andlega hruninu og margt margt fleira.

Þáttinn í heild má nálgast hér að neðan:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert