Hnífjafnt eftir mikla dramatík í Safamýri

Þorsteinn Gauti Hjálmarsson skýtur að marki sína gömlu félaga í …
Þorsteinn Gauti Hjálmarsson skýtur að marki sína gömlu félaga í Fram. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Fram og Afturelding skildu jöfn, 27:27, er liðin mættust í 2. umferð Olísdeildar karla í handbolta í Safamýri í kvöld. Matthías Daðason jafnaði metin fyrir Fram með vítakasti eftir að leiktíminn var liðinn. 

Fram skoraði fyrsta mark leiksins en þess fyrir utan var Afturelding skrefinu á undan allan fyrri hálfleikinn. Mosfellingar komust snemma í 5:2 og var munurinn 2-3 mörk út allan hálfleikinn. Afturelding skrefinu á undan, en Framarar í hæfilegri fjarlægð. 

Var munurinn þegar flautað var til hálfleiks tvö mörk, 15:13, Aftureldingu í vil. Sveinn Andri Sveinsson, Úlfar Monsi Þórðarson og Bergvin Þór Gíslason skoruðu allir þrjú mörk fyrir Mosfellinga í hálfleiknum. Andri Már Rúnarsson skoraði þrjú fyrir Fram, þar sem markaskorið dreifðist vel. 

Framarar voru fljótir að jafna í 16:16 í seinni hálfleik. Eftir það skiptust liðin á að skora og vera einu marki yfir og var staðan 23:23 þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum. 

Áfram héldu liðin að skiptast á að vera marki yfir og var staðan 26:26 þegar skammt var eftir og Framarar með boltann. Þorgrímur Smári Ólafsson skaut yfir mínútu fyrir leikslok og hinum megin skoraði Úlfar Monsi Þórðarson og kom Aftureldingu í 27:26. 

Framarar lögðu ekki árar í bát og brunuðu í lokasóknina sem endaði með að Þorsteinn Leó Gunnarsson braut illa á Andra Má Rúnarssyni, fékk rautt spjald, og Framarar víti. Matthías Daðason fór á vítalínuna og tryggði Fram eitt stig. 

Fram 27:27 Afturelding opna loka
60. mín. Þorgrímur Smári Ólafsson (Fram) skýtur yfir Varð að skjóta, annars hefði verið dæmd leiktöf.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert