Aalborg byrjar afar vel

Arnór Atlason
Arnór Atlason Ljósmynd/Aalborg

Danska liðið Aalborg sem Arnór Atlason starfar hjá sem aðstoðarþjálfari er að standa sig virkilega vel í Meistaradeild Evrópu. 

Aalborg fór í kvöld til Króatíu og vann Zagreb 27:26 en þangað hefur oft verið erfitt að sækja stig í handboltanum. 

Danska liðið hefur unnið alla þrjá leiki sína til þessa í keppninni en liðið er í svakalegum riðli. Veszprém hefur einnig unnið fyrstu þrjá og Barcelona með Aron Pálmarsson innanborðs hefur unnið fyrstu tvo. Þá eru Kiel og Nantes í riðlinum. Veszprém vann Motor Zaporozhye í kvöld 37:34 á útivelli.

Í hinum riðli keppninnar vann Flensburg öruggan sigur á Porto 36:29 en Flensburg hefur unnið fyrstu þrjá leiki sína. Stórliðið París St. Germain tapaði hins vegar fyrir Meshkov Brest á útivelli 32:31. Parísarliðið sem Guðjón Valur Sigurðsson lék með síðasta vetur fer ekki vel af stað og hefur tapað fyrstu tveimur leikjunum í keppninni. 

Um er að ræða leiki í keppninni 2020-2021 en keppninni 2019-2020 stendur til að ljúka á milli jóla og nýárs í Köln.

mbl.is