Íslendingarnir drjúgir í Evrópudeildinni

Ómar Ingi Magnússon skoraði átta mörk í Evrópudeildinni í kvöld.
Ómar Ingi Magnússon skoraði átta mörk í Evrópudeildinni í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þó nokkrir leikir fóru fram í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í handknattleik í kvöld og komu fjölmargir Íslendingar við sögu.

Ómar Ingi Magnússon og Gísli Þorgeir Kristjánsson áttu báðir stórleiki fyrir þýska liðið Magdeburg sem vann 37:30-sigur á CSKA Moskvu frá Rússlandi. Ómar skoraði átta mörk og Gísli sex.

Ólafur Andrés Guðmundsson var markahæstur hjá sænska liðinu Kristianstad sem vann 25:24-útisigur gegn Nimes frá Frakklandi. Ólafur skoraði sex mörk en Teitur Örn Einarsson skoraði fjögur.

Ýmir Örn Gíslason komst ekki á blað hjá þýska liðinu RN Löwen sem vann 37:32-útisigur á danska liðinu GOG. Viktor Gísli Hallgrímsson var sex skot af 31 í marki GOG en Alexander Petersson kom ekki við sögu í liði Löwen.

Þá skoraði Aron Dagur Pálsson tvö mörk fyrir sænska liðið Alingsås sem vann 32:-24 útisigur í Tyrklandi gegn Besiktas. Kadetten frá Sviss gerði 25:25-jafntefli gegn Pelister frá Makedóníu en Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfar svissneska liðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert