„Mér finnst gaman að vera fyrir utan“

Hergeir Grímsson var illviðráðanlegur á Akureyri í kvöld.
Hergeir Grímsson var illviðráðanlegur á Akureyri í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Hergeir Grímsson skoraði ellefu mörk fyrir Selfoss í kvöld þegar KA og Selfoss skildu jöfn 24:24 í Olís-deild karla í handbolta. Hergeir skoraði einmitt jöfnunarmark þegar tíu sekúndur voru til leiksloka. 

Hergeir. Þú varst í stuði í kvöld en það dugði aðeins til að ná einu stigi. Ertu sáttur við leikinn? 

„Það er erfitt að segja. Ég er bara dálítið svekktur að við unnum ekki leikinn. Við höfðum næg tækifæri til að vinna hann en gerum dýrkeypt mistök í seinni hálfleiknum. Þetta var svo bara 50/50 í restina og við hefðum allt eins getað tapað. Ég verð því að vera sáttur með þetta eina stig. 

Nú ert þú að spila fyrir utan eftir að hafa blómstrað sem hornamaður í meistaraflokki. Hefur þú verið í þessari stöðu í yngri flokkunum? 

„Ég er með ágætisreynslu í að spila á miðjunni og var þar oft í gegnum yngri flokkana. Maður veit eitthvað og mér finnst gaman að vera fyrir utan og finn mig bara vel í þessari stöðu. Ég nýt mín alla vega mjög vel og mér gekk vel í dag.“ 

Manni fannst þú oft hafa mikið pláss og komast nálægt vörn KA án mikilla vandkvæða. Atli Ævar var hins vegar í strangri gæslu á línunni og fékk varla boltann í leiknum. Hve mikinn þátt á Atli í mörkunum þínum? 

„Atli er ótrúlega góður línumaður og KA lagði mikla vinnu í að halda honum niðri. Hann tók því mikið til sín og við hinir fengum meira frelsi og pláss. Ég held að hann hafi átt hlut í flestum af mörkunum mínum. Hann pressar vörnina alveg niður að línunni og þá er oft einfalt að skjóta fyrir utan. Þótt hann hafi ekki skorað mark í dag þá er hann að skapa alveg helling. Hann var að vinna hellingsvinnu sem kannski margir taka ekkert eftir og ef hann fær boltann þá er ótrúlega erfitt að stoppa hann.“  

Það var líka gaman að fylgjast með viðskiptum þínum við Áka Egilsnes í KA. Þið voruð mikið að kljást en það var greinilegt að það fór vel á með ykkur og þið pössuðuð upp á hvor annan. 

„Ég hef bara góða hluti að segja um Áka. Hann er mjög góður í handbolta, ekki bara í sókn heldur líka í vörninni. Það er alltaf gaman að spila á móti svona góðum leikmönnum. Maður þarf bara að mæta þeim, standast þeim snúning. Áki er alltaf erfiður og til þess að eiga roð í hann þá þarf maður að mæta til leiks af fullum krafti.“ 

Nú er Guðmundur Hólmar genginn úr skaftinu hjá ykkur. Þetta er mikill missir fyrir Selfoss. 

„Það segir sig alveg sjálft. Hann er einn af bestu leikmönnum deildarinnar og mikilvægur í vörn og sókn og líka bara í klefanum og á æfingum. Hann gefur liðinu heilmikinn kraft, ekki bara handboltalega og hann gefur mikið frá sér. Þetta er bara mjög mjög leiðinlegt og þá aðallega fyrir hann sjálfan. Það er svo bara eins og alltaf er sagt. Það kemur maður í manns stað. Nú verða menn bara að taka eitt aukastref áfram til að fylla í skarðið sem hann skilur eftir sig,“ sagði snillingurinn Hergeir að lokum. 

mbl.is