Guðmundur krækir í erfiðan andstæðing

André Gomes brýtur sér leið í gegnum íslensku vörnina á …
André Gomes brýtur sér leið í gegnum íslensku vörnina á HM í Egyptalandi. AFP

Portúgalski handknattleiksmaðurinn André Gomes hefur skrifað undir þriggja ára samning við þýska félagið Melsungen og þar með hefur Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari og þjálfari Melsungen, krækt í leikmann sem gerði honum lífið leitt í janúarmánuði.

André Gomes var einn besti leikmaður portúgalska landsliðsins þegar það vann Ísland tvívegis í þremur mikilvægum leikjum í janúar. Hann er 22 ára gamall og margir telja hann vera kominn í hóp bestu handknattleiksmanna heims. Gomes leikur sem skytta og er gríðarlega öflugur í gegnumbrotum eins og íslenska liðið fékk að kynnast.

Gomes lýkur tímabilinu með Porto þar sem hann hefur leikið undanfarin fjögur ár og kemur til liðs við Melsungen í sumar. Með Porto hefur hann þegar mikla reynslu úr Meistaradeild Evrópu ásamt því að vera lykilmaður í liði Portúgala sem hefur komið hratt upp á sjónarsviðið á undanförnum misserum.

Arnar Freyr Arnarsson býr sig undir að taka á móti …
Arnar Freyr Arnarsson býr sig undir að taka á móti André Gomes. Þeir verða nú liðsfélagar hjá Melsungen. AFP

Gomes á ekki langt að sækja íþróttahæfileikana en faðir hans, Jorge Gomes, var vel þekktur knattspyrnumaður frá Brasilíu. Hann lék með Vasco da Gama í heimalandi sínu og flutti síðan til Portúgal þar sem hann lék í sextán ár, m.a. með Benfica og Braga.

Landsliðsmennirnir Arnar Freyr Arnarsson og Elvar Örn Jónsson verða liðsfélagar Gomes næsta vetur en Elvar er væntanlegur til Melsungen frá Skjern í Danmörku í sumar.

Axel Geerken, stjórnarmaður Melsungen, segir á heimasíðu félagsins að Guðmundur hafi verið lykilmaður í að fá þá Gomes og Elvar til félagsins. Þar séu á ferð tveir ungir, hæfileikaríkir og gríðarlega metnaðarfullir leikmenn sem þrátt fyrir aldurinn séu komnir með mikla alþjóðlega reynslu.

Gomes gæti leikið með Melsungen í Evrópukeppni á næsta tímabili. Liðið er sem stendur í níunda sæti af tuttugu liðum í þýsku 1. deildinni, fjórum stigum frá sjötta sætinu sem gefur keppnisrétt í Evrópumótunum, en á tvo til þrjá leiki til góða á liðin sem eru fyrir ofan. Melsungen getur styrkt stöðu sína í kvöld þegar liðið fær eitt botnliðanna, Essen, í heimsókn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert