Ísland tapaði í Litháen

Aron Pálmarsson skoraði 8 mörk og var markahæstur í íslenska …
Aron Pálmarsson skoraði 8 mörk og var markahæstur í íslenska liðinu. Ljósmynd/HSÍ

Litháen sigraði Ísland 29:27 í 4. riðli undankeppni Evrópumóts karla í handknattleik í Vilnius, höfuðborg Litháen, í dag. Ísland er samt sem áður nær öruggt um sæti í lokakeppninni en Portúgal vinnur væntanlega riðilinn. 

Ísland og Portúgal eru með 6 stig eftir fjórar umferðir af sex en Litháen er með 4 stig og Ísrael  með 2 stig. Leikur Ísrael og Portúgals hófst klukkan 17 í Tel Aviv. 

Yfirgnæfandi líkur eru á því að Ísland komist í lokakeppnina þrátt fyrir tapið enda fara tvö efstu liðin í riðlinum í lokakeppnina. Með sigri hefði Ísland hins vegar nánast tryggt sér efsta sætið í riðlinum og það hefur áhrif á niðurröðun þegar dregið er í lokakeppnina. 

Leikurinn var erfiður fyrir íslenska liðið svo gott sem allan tímann. Litháarnir náðu ágætum tökum á leiknum snemma leiks og komu sér upp góðu forskoti. Náðu þeir sex marka forskoti 9:3 og 10:4. Forskot sem Ísland náði ekki að vinna upp að þessu sinni þótt liðið hafi komist nálægt því í síðari hálfleik. Að loknum fyrri hálfleik var staðan 13:9. 

Viktor Gísli, Gunnar Magnússon, Sigvaldi Björn, Guðmundur Guðmundsson, Arnar Freyr …
Viktor Gísli, Gunnar Magnússon, Sigvaldi Björn, Guðmundur Guðmundsson, Arnar Freyr og Sveinn Jóhannsson fylgjast með í Vilnius í dag. Ljósmynd/HSÍ

Leikstjórnandi Litháa Aidenas Malasinskas var besti maður vallarins og stjórnaði hraðanum í leiknum. Hann skoraði 12 mörk og gaf fjöldann allan af stoðsendingum. Til að mynda mataði hann línumennina hjá Litháen ítrekað. Íslensku leikmennirnir komu langt út á völlinn á móti Malasinskas og það hentaði honum vel. Hann braust í gegnum vörnina hvað eftir annað. Jonas Truchanovicius er 203 cm há skytta og skoraði 7 mörk. Hann var mjög ógnandi sem gerði það að verkum að Malasinskas fékk meira pláss. 

Íslenska liðið náði aldrei að stöðva Malasinskas þótt leikur Íslands hafi batnað í síðari hálfleik. Ísland náði að minnka muninn niður í eitt mark en náði ekki að jafna. Aron Pálmarsson skoraði 8 mörk og má segja að fyrirliðinn hafi skilað sínu í markskorun. Margt fór samt sem áður úrskeiðis í sókninni. Ísland tapaði boltanum oft og Giedrius Morkuna fyrrverandi markvörður Hauka varði nokkuð vel í fyrri hálfleik. Markvarslan var hins vegar lítið hjá Litháen í síðari hálflelik og þar réðust úrslitin ekki því Ágúst Elí Björgvinsson og Viktor Gísli Hallgrímsson vörðu samtals 17 skot. 

Bjarki Már Elísson var drjúgur og skoraði sex mörk. Sveinn Jóhannsson sem ekki hefur leikið marga mikilvæga leiki með A-landsliðinu kom inn á og fékk stórt hlutverk í vörn og sókn. Sveinn komst vel frá sínu í sókninni en eins og Ýmir Örn Gíslason, Arnar Freyr Arnarsson og Elvar Örn Jónsson var hann í vandræðum á móti Malasinskas.

Þá kom Ólafur Guðmundsson ákveðinn inn af bekknum og skilaði sínu.

Þegar liðin mættust í Litháen í júní árið 2018 þá gerðu liðin jafntefli 27:27. Ef til vill hafa einhverjir búist við að úrslitin yrðu betri í dag en svo fór ekki. 

Elvar Örn Jónsson tekinn föstum tökum af vörn Litháa í …
Elvar Örn Jónsson tekinn föstum tökum af vörn Litháa í leiknum í Vilnius í dag. Ljósmynd/HSÍ
Litháen 29:27 Ísland opna loka
60. mín. Litháen tekur leikhlé Sigurinn blasir við Litháum. Eru með boltann og innan við mínúta eftir.
mbl.is