Valsmenn minntu á sig á Selfossi

Magnús Óli Magnússon hjá Val í baráttu við Hergeir Grímsson …
Magnús Óli Magnússon hjá Val í baráttu við Hergeir Grímsson og Einar Sverrisson hjá Selfossi í fyrri leik liðanna í febrúar. Eggert Jóhannesson

Valsmenn lyftu sér uppfyrir Selfyssinga með því að leggja þá af velli á sannfærandi hátt á útivelli í kvöld, þegar liðin mættust í 18. umferð Olísdeildar karla í handknattleik, 26:31.

Fyrirfram var búist við hörkuleik en sú virtist aldeilis ekki ætla að verða raunin á upphafsmínútunum. Selfyssingar byrjuðu af miklum krafti og leiddu 9:2 eftir tíu mínútna leik. Valsmenn voru virkilega slegnir út af laginu en tóku leikhlé á þessum tímapunkti og sneru leiknum sér í vil. Valur svaraði með fimm mörkum í röð og nú var þetta orðinn leikur.

Gestirnir voru ekki hættir heldur spiluðu vörnina af miklum ákafa á meðan Selfyssingar hikuðu í sókninni og vörnin gaf færi á sér sem varð til þess að markvarslan datt niður, en Vilius Rasimas hafði verið frábær á upphafskaflanum. Valsmenn jöfnuðu 12:12 þegar fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik og komust yfir í kjölfarið en Selfyssingar áttu síðustu sóknina í fyrri hálfleik og jöfnuðu 15:15.

 Í seinni hálfleik var jafnt á öllum tölum fyrsta korterið og mikil spenna í leiknum; hraði, mistök og frábær tilþrif. Allt sem góður handboltaleikur þarf að innihalda. Staðan var 21:21 þegar korter var eftir en þá gerðu Valsmenn út um leikinn með fimm mörkum í röð. Magnús Óli Magnússon fór gjörsamlega á kostum og var fremstur í flokki í breiðfylkingu gæða hjá gestunum. Þá eru ótaldir Anton Rúnarson, Róbert Hostert, Vignir Stefánsson… og ég get haldið áfram; Valsmenn tóku þetta á breiddinni.

 Á meðan Valsmenn beittu leiftursóknum spiluðu Selfyssingar langar sóknir sem enduðu oftar en ekki í vandræðagangi. Menn virtust ekki vissir um hvaða leið ætti að fara. Guðjón Baldur Ómarsson var öruggastur Selfyssinga í sókninni en fékk boltann of sjaldan.

Guðjón Baldur skoraði 6 mörk fyrir Selfoss og það gerði Atli Ævar Ingólfsson líka en línumaðurinn var ólíkur sjálfum sér í kvöld og fór illa með nokkur góð færi. Vilius Rasimas varði 14 skot en það dugði ekki til. Hjá Val skoruðu þeir Róbert Aron, Anton og Vignir Stefánsson allir 6 mörk. Martin Nagy varði 9 skot í rammanum.

Valur hefur nú 21 stig í 5. sæti deildarinnar en Selfoss er með 20 stig í 6. sæti.

Selfoss 26:31 Valur opna loka
60. mín. Nökkvi Dan Elliðason (Selfoss) skoraði mark
mbl.is