„Það er ekkert að ástæðulausu að það trylltist allt í húsinu“

Halldór Örn Tryggvason var líflegur á hliðarlínunni í kvöld.
Halldór Örn Tryggvason var líflegur á hliðarlínunni í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Þjálfari Þórs í handbolta karla, Halldór Örn Tryggvason, var skiljanlega svekktur eftir 19:19 jafntefli Þórs við KA í kvöld. Þórsarar skoruðu mark skömmu fyrir leikslok en dæmt var aukakast og tíminn fjaraði út.  

Hvað var eiginlega verið að dæma þarna í lokin Halldór? Var þetta ekki bara mark eða vítakast? Voru þið ekki bara rændir þessu marki? 

„Það er bara einfalt. Við vorum rændir sigrinum, punktur. Þetta var bara mark, sama hvað og ef þeir ætla að dæma eitthvað þá eiga þeir að dæma víti á þetta. Hann er kominn með boltann í hendurnar og nær að snúa sér. Maður í bakinu á honum. Við vorum rændir, unnum 20:19. Við skulum orða það þannig. Það er ekkert að ástæðulausu að það trylltist allt í húsinu. Það voru flestir sammála um þetta, hvort sem menn voru í rauðu og hvítu eða gulu og bláu. Ég er alveg pottþéttur á því að þessir gulu og bláu hefðu orðið ennþá æfari, ef þetta hefði verið dæmt hjá þeim. Dómararnir voru kannski stressaðir eins og fleiri.“ 

Þetta var ykkar svanasöngur í efstu deild í bili. Hvernig lítur út með næsta tímabil? 

„Það er bara óráðið í rauninni. Þetta lið sem var á vellinum í dag er að splundrast. Menn eru á leiðinni í önnur lið og ég er að renna út á samning, bara núna. Það er bara óráðið hvað verður, Ný stjórn að koma en ég hef fulla trú á að þetta lið komi aftur upp eftir eitt ár. Ég hef enga trú á öðru. Við erum með lungann af okkar leikmönnum uppalda í Þór og það eru ungir strákar að bera þetta uppi.“ 

Einn af þeim Er Sigurður Kristófer Skjaldarson, sem KA-menn réðu lítið við í kvöld, meðan hans naut við. Hann meiddist um miðjan seinni hálfleikinn og það varð allt töluvert stirðara í sóknarleik ykkar eftir það. 

„Já. Kiddi er þeim eiginleikum gæddur að geta tekið menn á einn síns liðs. Hann er með gríðarlegan sprengikraft og mjög sterkur þannig að ég vona svo sannarlega að hann haldi áfram og verði einn af máttarstólpum liðsins á næstu árum“ sagði Halldór Örn að lokum. 

mbl.is