Góður liðstyrkur í Mosfellsbæinn

Andri Sigmarsson Scheving ver mark Mosfellinga á næsta tímabili.
Andri Sigmarsson Scheving ver mark Mosfellinga á næsta tímabili. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Handknattleikslið Aftureldingar hefur fengið markvörðinn unga og efnilega Andra Sigmarsson Scheving að láni frá Haukum og mun hann leika með liðinu á næsta tímabili.

Andri, sem er 21 árs, hefur verið annar markvarða Hauka undanfarin ár og deildi því hlutverki með Björgvini Páli Gústavssyni á nýafstöðnu tímabili, þó sá síðarnefndi hafi vissulega spilað fleiri mínútur.

Þeir verða þá hvorugir í röðum Hauka á næsta tímabili þar sem Björgvin Páll er búinn að semja við Íslandsmeistara Vals.

Aron Rafn Eðvarðsson er á leiðinni heim frá Bietigheim í Þýskalandi og ver mark Hauka á næsta tímabili, auk þess sem Stefán Huldar Stefánsson kemur til baka úr láni frá Gróttu.

Ljóst er því að um nokkurn markmannskapal er að ræða í íslensku úrvalsdeildinni í handknattleik, þar sem samkvæmt heimildum Handbolta.is er Arnór Freyr Stefánsson, markvörður Aftureldingar, á leið til Stjörnunnar.

Brynjar Atli Bragason, markvörður Stjörnunnar, hyggst hins vegar taka sér hlé frá handboltaiðkun á næsta tímabili til þess að sinna námi, að því er Handbolti.is greinir frá.

Andri er áfram hugsaður sem framtíðarmarkvörður Hauka en fer á lán til þess að öðlast dýrmæta reynslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert