„Mikilvægara en mig grunaði“

Árni Bragi Eyjólfsson.
Árni Bragi Eyjólfsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Árni Bragi Eyjólfsson, besti leikmaður Íslandsmótsins, segist virkilega kunna að meta þá viðurkenningu sem í því felst að vera valinn af leikmönnum deildarinnar. 

„Í hreinskilni sagt þá gerir þessi viðurkenning rosa mikið fyrir mig. Ég hef gengið í gegnum súrt og sætt í boltanum. Var til að mynda í liði sem komst ítrekað í úrslit Íslandsmótsins og hafnaði í þessu fræga 2. sæti ár eftir ár eftir ár. Að fá þá nafnbót að vera bestur í deildinni er mikilvægara fyrir mig en mig grunaði,“ sagði Árni Bragi þegar mbl.is spjallaði við hann að verðlaunaafhendingu lokinni á Grand hótel í dag. Hann var valinn besti sóknarmaðurinn og varð markakóngur. Árni var einnig valinn besti leikmaður deildarinnar af þjálfurum liðanna í deildinni og fékk fyrir það Valdimarsbikarinn. Ofan á allt saman fékk hann einnig háttvísisverðlaunin.

„Ég bjóst allt eins við því að fá einhverjar viðurkenningar sem tengjast sóknarleik en get ekki sagt að ég hafi búist við þessu. Það er frábær viðurkenning að vera valinn af kollegunum og ég kann virkilega að meta það.“

Árni Bragi Eyjólfsson var skæður á hægri vængnum í vetur.
Árni Bragi Eyjólfsson var skæður á hægri vængnum í vetur. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Árni segir velgengnina í vetur hafa komið á góðum tíma fyrir sig því ekki hafi gengið of vel síðustu tvö tímabil þar á undan að hans mati. 

„Hjá Aftureldingu var allt upp á 10 þegar ég var þar. En ég hafði verið þar lengi og fór þaðan til Danmerkur. Ég hefði viljað eiga lengri feril þar en það gekk ekki upp. Síðasta árið í Aftureldingu var pínu erfitt og árið í fyrra enn erfiðara. Ég kem frá Akureyri og hef því taugar til KA. Hjá KA hafa menn aldrei klikkað á því að heyra í mér og athuga hvort ég vilji koma norður. Þegar þeir heyrðu að ég væri mögulega á leið heim frá Danmörku þá létu þeir vita af sér. Traustið sem ég fann fyrir hjá KA var engan veginn sjálfsagt. Ég hafði einhvern tíma staðið mig vel en hafði ekki spilað vel í nokkurn tíma. Mér fannst ég því þurfa að standa mig fyrir félag sem hafði svo mikla trú á mér,“ sagði Árni en tilkynnt var í vor að hann myndi flytja aftur suður og mun leika með Aftureldingu á ný næsta vetur. 

Árni Bragi mun aftur klæðast treyju Aftureldingar á næsta tímabili.
Árni Bragi mun aftur klæðast treyju Aftureldingar á næsta tímabili. mbl.is/Hari

„Kannski er ekki heppilegt að leita að einhverju nýju þegar vel gengur en inn í þá ákvörðun spilar margt. Ég er til dæmis að verða faðir í fyrsta skipti og langflestir okkar nánustu eru á höfuðborgarsvæðinu. Varðandi handboltann þá hef ég alltaf verið með það í höfðinu hversu nálægt við vorum að ná Íslandsmeistaratitlinum í Mosfellsbæ. Ég get alveg sagt án þess að sjá eftir því að ég fer nú í Aftureldingu til að vinna bikara. Efnilegasti leikmaður Íslandsmótsins er hjá Aftureldingu, Blær Hinriksson, og besti markvörðurinn Andri Scheving er á leið í Aftureldingu. Þetta verður hörkulið og ég set þá kröfu á sjálfan mig að við vinnum Íslandsmótið.

KA er í ákveðinni vegferð og ég var ofboðslega ánægður með að vera hluti af henni. Ég hef kynnst frábærum persónuleikum í félaginu. Stelpurnar urðu meistarar. Þær voru langbestar og eiga þetta allt skilið. Við karlarnir unnum ekki bikara en tókum þó skref fram á við miðað við það sem KA hefur gert síðustu ár. Við stimpluðum okkur inn í úrslitakeppni og vorum í rauninni klaufar að vera ekki með heimaleikjarétt í henni. Að ganga í burtu eftir þetta keppnistímabil er svolítið annað en að ganga í burtu með skottið á milli lappanna,“ sagði Árni Bragi enn fremur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert