Sólveig hætt í handboltanum

Sólveig Lára Kjærnested í leik með Stjörnunni.
Sólveig Lára Kjærnested í leik með Stjörnunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Handknattleikskonan reynda Sólveig Lára Kjærnested hefur lagt skóna á hilluna eftir tuttugu ára feril með Stjörnunni en hún hefur leikið með Garðabæjarliðinu nær óslitið frá fimmtán ára aldri.

Handknattleiksdeild Stjörnunnar skýrir frá þessari ákvörðun Sólveigar á facebooksíðu sinni en hún hefur verið afar sigursæl með félaginu og orðið Íslandsmeistari með því þrisvar, bikarmeistari fimm sinnum og deildarmeistari þrisvar, ásamt því að spila tvisvar með Stjörnunni í Evrópukeppni. Sólveig lék 63 A-landsleiki fyrir Íslands hönd.

Í tilkynningu Stjörnunnar segir síðan:

Barátta og þrautseigja einkennir Sollu sem leikmann. Hún gefur allt sitt í öll verkefni og er draumur hvers þjálfara. Það kemur ekki á óvart að hún hefur lengi verið fyrirliði Stjörnuliðsins, og það hjá fjórum mismunandi þjálfurum.

Það verður mikill missir að Sollu á vellinum, ekki bara fyrir Stjörnuna heldur einnig íslenskan kvennahandbolta. Erum við bæði stolt og þakklát fyrir að hafa tekið stóran þátt í hennar ferli. 

Takk fyrir öll árin og það sem þú hefur gefið Stjörnunni á þínum ferli. Gangi þér sem allra best. Sjáumst í stúkunni í vetur.

mbl.is