„Mikið andlegt högg“

Karolina Olszowa sækir að marki Vals í kvöld. Magnús Kári …
Karolina Olszowa sækir að marki Vals í kvöld. Magnús Kári Jónsson dómari fylgist grannt með. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Sigurður Bragason, þjálfari ÍBV, var auðvitað vonsvikinn að komast ekki með sitt lið í Final 4 í ár, en liðið tapaði með þriggja marka mun fyrir Val í kvöld.

Valskonur„Við vorum með 17 tæknifeila, vorum að reyna að hnoða of mikið á línuna, sem var kannski ekkert skrýtið. Við erum með minni skotógn en vanalega í þessum leik.“

ÍBV skaut mikið að utan, fleiri skot en gestirnir, en nýtingin var ekki góð.

„Það vantar okkar helstu skyttur og þær gátu staðið aftur á línu, klippt á Sunnu og við vorum því að taka erfiðari skot. Við vorum að reyna en það vantar alvöru skot í þetta.“


Leikurinn byrjaði mjög jafn og voru Eyjakonur yfir 6:5 þegar Valur hóf sinn 6:0 kafla.

„Þar fór eiginlega leikurinn, þó við höfum gert þrjú áhlaup eftir það þá fór trúin aðeins þarna og eldmóðurinn sem var í okkur fyrir leik og í upphafi leiks. Það var ekki gott, sá kafli var dýr. Þetta var samt ekki alveg búið en þetta var aðeins of mikið, við brennum af mikið af góðum færum á þessum köflum. Þær voru aðeins betri en við og ég fer ekkert ofan af því, við urðum fyrir þannig höggi á föstudaginn,“ sagði Sigurður en þar vísar hann í krossbandsslit Birnu Berg.

„Þetta var líka mikið andlegt högg, Birna er vinkona allra í liðinu, þetta var mjög erfitt. Við náðum ekki alveg að yfirvinna það andlega.“

Sigurður Bragason á hliðarlínunni í kvöld.
Sigurður Bragason á hliðarlínunni í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar
Marija Jovanovic og Marta Wawzrynkowska áttu góðan seinni hálfleik og munu eflaust koma til með að vera lykilmenn í ÍBV-liðinu á leiktíðinni.

„Þær verða að gera það, Marta er einn af tveimur bestu markvörðunum í deildinni, tölfræðin sýnir það. Hún verður okkar lykilleikmaður, þetta var fyrsti alvöru keppnisleikur hjá Mariju og mér líst vel á hana. Við þurfum að fá aðeins meira út úr henni í sókninni, ég var ánægður með þær eins og allar, það voru allar að reyna en línuspilið var ósexy.“

ÍBV var með fjóra leikmenn í U17 verkefni í sumar en býst Sigurður við því að margar ungar muni fá sénsinn á tímabilinu?

„Bekkurinn var bara ungur, Sara kom frábær inn í sínum fyrsta leik, Elísa er orðinn lykilleikmaður. Bríet var líka í landsliðsverkefni eins og Harpa Valey sem er 18 ára,“ auk þeirra átti ÍBV einnig Amelíu Dís Einarsdóttur á bekknum og Þóru Björgu Stefánsdóttur sem er í landsliðsverkefni með U19-ára landsliði KSÍ.

„Er þetta ekki orðin blandan hjá öllum? Vera með reynslu og skemmtilegar ungar, þetta er kannski í fyrsta skiptið sem við náum hjá ÍBV að fylgja stelpunum okkar alveg upp, við erum oft með efnilegar stelpur sem detta aðeins út. Núna erum við alveg með sex unglingalandsliðsstelpur sem taka vonandi við keflinu,“ sagði Sigurður að lokum um efniviðinn í liðinu.

mbl.is