„Valur með ungt og tæknilega vel þjálfað lið“

Florian Kehrmann og Snorri Steinn Guðjónsson eigast við í landsleik …
Florian Kehrmann og Snorri Steinn Guðjónsson eigast við í landsleik Þýskalands og Íslands á sínum tíma. Á morgun mætast þeir sem þjálfarar Lemgo og Vals. Brynjar Gauti

Florian Kehrmann, þjálfari Lemgo, segir það mikilvægt að vanmeta ekki Val þegar liðin mætast í annarri umferð Evrópudeildarinnar í handknattleik karla.

Fyrri leikurinn fer fram í Origo-höllinni á Hlíðarenda annað kvöld og verður það í fyrsta sinn í áratug sem Lemgo kemur hingað til lands í heimsókn til að spila Evrópuleik.

„Það er mikilvægt að nálgast verkefnið af fullri alvöru, að gangast við því að vera talinn sigurstranglegri aðilinn en vera um leið undirbúnir,“ sagði Kehrmann í samtali við heimasíðu Lemgo í dag.

Hann sagði vanmat ekki í boði enda Íslandsmeistarar Vals með gott lið. Er það til að mynda rifjað upp á heimasíðu Lemgo að Valur hafi komist alla leið í átta liða úrslit Áskorendabikars EHF tímabilið 2019/2020, en að hætt hafi verið keppni í honum vegna kórónuveirufaraldursins.  

„Valur er með ungt og tæknilega vel þjálfað lið sem býr yfir miklum hraða í vörninni. Í vörninni verjast þeir á mjög árásargjarnan hátt. Stundum eru þeir þéttir og stundum mjög árásargjarnir,“ sagði Kehrmann, en þetta verður í fyrsta skipti sem hann þjálfar Evrópuleik.

Er lið Lemgo, þar sem landsliðsmaðurinn Bjarki Már Elísson er lykilmaður og þeirra helsti markaskorari, sagt búa yfir ýmsum íslenskum dyggðum á við baráttu, ástríðu og miklum vilja.

Leikmenn og starfsfólk Lemgo héldu af stað til Íslands í morgun þegar flogið var frá Frankfurt til Keflavíkur. Kehrmann sagði það mikilvægt fyrir leikmenn að ná að hrista alla mögulega streitu sem fylgdi ferðalaginu úr sér, þar á meðal tveggja tíma tímamun.

„Við verðum að standa okkur vel og venjast alþjóðlegum vettvangi, sérstaklega þegar kemur að túlkun á dómaraákvörðunum,“ sagði hann.

Með sigri í einvíginu bíður sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar. „Fyrir okkur er mikilvægt að njóta ævintýra í Evrópu og nálgast slík verkefni á jákvæðan hátt. Það væri frábær yfirlýsing ef Lemgo næði að hafa fulltrúa í Evrópu á ný eftir öll þessi ár og geti farið fram af krafti,“ sagði Kehrmann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert