„Gerir mikið fyrir okkur strákana“

Agnar Smári Jónsson sækir að marki Lemgo í gær.
Agnar Smári Jónsson sækir að marki Lemgo í gær. mbl.is/Unnur Karen

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari karlaliðs Vals í handknattleik, segir það gera mikið fyrir sína leikmenn að fá að mæta þýsku atvinnumannaliði í Evrópudeildinni. 

Valur mætti Lemgo í gærkvöldi í 2. umferð keppninnar og tapaði naumlega á Hlíðarenda 26:27. „Erfitt að segja. Kannski aðallega klókindi hjá þeim,“ sagði Snorri þegar mbl.is spurði hann honum hafi fundist ráða úrslitum í leiknum. 

„Þeim tókst að þétta varnarleikinn og það dró aðeins af okkur, sérstaklega í sókninni. Við vorum frábærir í vörninni og höndin fór ítrekað upp á þá [hjá dómurunum til marks um leiktöf] og þeir skoruðu þrjú mörk úr slíkri stöðu. Dómgæslan var náttúrlega þeim í vil og það er því svona eitt og annað.“

Valur var yfir 23:17 þegar um tuttugur mínútur voru eftir. Snorra þótti vörnin duga vel út leikinn en sóknin hafi hikstað þegar á leið. „Við spiluðum góða vörn í 60 mínútur og mér fannst Lemgo ekki eiga mörg svör við því. Það var frekar í sókninni þar sem dró af okkur. Þá lentum við í veseni og áttum erfitt með að skora.“

Gott merki

Spurður um hvort lið Lemgo hafi spilað eins og Snorri átti von á sagði hann ekki geta svarað því. 

„Ég veit það ekki alveg. Ég fór inn í þennan leik til að vinna en ég vissi svo sem alveg að þetta gæti farið í báðar áttir. Við hittum á góðan leik og frammistaðan var virkilega góð. Ég er hundsvekktur og strákarnir líka. Að tapa fyrir bikarmeisturunum í Þýskalandi og vera hundfúll yfir því held ég að sé gott merki. Ég vissi svo sem ekkert hvar íslenskt lið stendur gegn liðum í Bundesligunni. Auðvitað er Lemgo með sterkara lið en Valur og allt það. Þeir ættu að öllu jöfnu að fara áfram í þessari keppni. Það hefði verið gaman að vera með tvö til þrjú mörk í farteskinu þegar farið verður í seinni leikinn í Þýskalandi. Við hefðum þurft að vera aðeins klókari í sókninni því við vorum farnir að ströggla við að skora undir lokin. Við áttum möguleika á að vinna og ég þarf að skoða aðeins betur hvað hefði mátt betur fara.“

Snorri Steinn Guðjónsson fer yfir sviðið með sínum mönnum.
Snorri Steinn Guðjónsson fer yfir sviðið með sínum mönnum. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Töluvert langt er liðið frá því þýskt lið lék hér síðast í Evrópukeppni enda hafa íslensku liðin ekki oft treyst sér til að taka þátt í Evrópukeppnum síðasta áratuginn. Líklega kom Flensburg síðast til Íslands þegar liðið mætti Haukum árið 2008. Hvaða þýðingu hefur það fyrir Val og handboltahreyfinguna á Íslandi að fá topplið frá Þýskalandi til landsins? 

„Það gerir alla vega gríðarlega mikið fyrir okkur strákana. Ég hef alveg fundið það á þeim [leikmönnum Vals] að spenningurinn er mikill og einnig mikil tilhlökkun. Það eru ákveðin forréttindi að gera þetta snemma á tímabilinu. Eitt af markmiðum okkar í þessari keppni var að fá hingað lið sem allir þekkja. Við vorum því bara ánægðir með þennan drátt að því leytinu til. Þetta er eitthvað sem þyrfti að gerast oftar og er jákvætt. Að geta staðið í 100% atvinnumönnum á meðan við erum það ekki er jákvætt. Það er gaman. Ég er með marga leikmenn sem eflaust horfa til Bundesligunnar. Ég hugsa að þeir horfi ekki minna til hennar eftir þetta. En við eigum að fara út og þar þurfum við einnig að standa í lappirnar. Það verður annars eðlis,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson ennfremur í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert