Íslendingaslagur í undanúrslitum heimsmeistaramóts?

Ómar Ingi Magnússon og Aron Pálmarsson gætu mæst í undanúrslitaleik …
Ómar Ingi Magnússon og Aron Pálmarsson gætu mæst í undanúrslitaleik heimsmeistaramóts félagsliða. mbl.is/Hari

Miklar líkur eru á að Íslendingaliðin Magdeburg og Aalborg mætist í undanúrslitum heimsmeistaramóts félagsliða sem fer fram í Sádi-Arabíu dagana 4. til 9. október.

Aalborg frá Danmörku, lið Arons Pálmarssonar og Arnórs Atlasonar, leikur við Al Wehda frá Sádi-Arabíu eða San Francisco CalHeat frá Bandaríkjunum í átta liða úrslitum.

Magdeburg, lið Ómars Inga Magnússonar og Gísla Þorgeirs Kristjánssonar, mætir fyrst Sydney frá Ástralíu í fyrstu umferð, þar sem það vinnur væntanlega afar auðveldan sigur, og mætir síðan Asíumeisturunum Al Duhail frá Katar í átta liða úrslitum.

Sigurliðin í þessum viðureignum átta liða úrslitanna eigast síðan við í undanúrslitum keppninnar.

Aron Pálmarsson var í sigurliði síðast þegar keppnin var haldin, í lok ágúst 2019, en þá vann hann heimsmeistaratitilinn með liði Barcelona.

Tíu lið leika um heimsmeistaratitil félagsliða en keppnin hefur farið fram árlega frá 2010, nema hvað hún féll niður síðasta haust vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Það eru eftirtalin lið:

Barcelona, Spáni - Evrópumeistari og sigurvegari í síðustu keppni
Zamalek, Egyptalandi - Afríkumeistari
Al Duhail, Katar - Asíumeistari
Sydney University - fulltrúi Eyjaálfu
San Francisco CalHeat - Norður-Ameríku og Karíbahafsmeistari
Pinheiros, Brasilíu - Suður- og Mið-Ameríkumeistari
Aalborg, Danmörku - silfurlið Meistaradeildar Evrópu
Al Wehda, Sádi-Arabíu -  gestgjafi
Al-Noor, Sádi-Arabíu - gestgjafi
Magdeburg, Þýskalandi - Evrópudeildarmeistari

mbl.is