Markvarslan skildi liðin að á Hlíðarenda

Martha Hermannsdóttir og Elín Rósa Magnúsdóttir takast á á Hlíðarenda …
Martha Hermannsdóttir og Elín Rósa Magnúsdóttir takast á á Hlíðarenda í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Andrea Gunnlaugsdóttir átti stórleik í marki Vals þegar liðin vann fjögurra marka sigur gegn KA/Þór í þriðja leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts kvenna í handknattleik í Origo-höllinni á Hlíðarenda í kvöld.

Leiknum lauk með 30:26-sigri Vals sem leiðir nú 2:1 í einvíginu en Andrea varði 18 skot í marki Vals, þar af eitt vítakast, og var besti leikmaður vallarins.

Akureyringar byrjuðu leikinn miklu betur og Rakel Sara Elvarsdóttir kom KA/Þór 7:1 yfir eftir átta mínútna leik.

Valskonur lengi í gang en Þórey Anna Ásgeirsdóttir minnkaði muninn í tvö mörk, 8:10, þegar tíu mínútur voru eftir af fyrri hálfleik.

Liðin skiptust á að skora eftir þetta en Hulda Dís Þrastardóttir minnkaði muninn í eitt mark, 13:14, í síðustu sókn Valskvenna og KA/Þór leiddi með einu marki í hálfleik.

Akureyringar byrjuðu síðari hálfleikinn líkt og þann fyrri og Unnur Ómarsdóttir kom þeim fjórum mörkum yfir, 18:14, þegar fimm mínútur voru liðnar af síðari hálfleik.

Þá hrukku Valskonur í gang með Andreu fremsta í flokki sem varði hvert skotið á fætur öðru og Val tókst að jafna metin í 21:21 þegar fimmtán mínútur voru til leiksloka.

Þær komust svo yfir, 22:21, og létu forystuna aldrei af hendi eftir það.

Auður Ester Gestsdóttir og Hildigunnur Einarsdóttir voru markahæstar í liði Vals með sex mörk hvor en Unnur Ómarsdóttir og Rut Jónsdóttir skoruðu fimm mörk hvor fyrir KA/Þór.

Liðin mætast næst í KA heimilinu á Akureyri á laugardaginn kemur og dugar Valskonum sigur til þess að tryggja sér sæti í úrslitum Íslandsmótsins.

Valur 30:26 KA/Þór opna loka
60. mín. Martha Hermannsdóttir (KA/Þór) skoraði mark
mbl.is