Bjarki markahæstur í þýsku deildinni

Bjarki Már Elísson hefur leikið afar vel með Lemgo á …
Bjarki Már Elísson hefur leikið afar vel með Lemgo á leiktíðinni. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Landsliðsmaðurinn Bjarki Már Elísson er markahæstur allra í þýsku 1. deildinni í handbolta á leiktíðinni með 204 mörk. Hefur hann skorað einu marki meira en íslenskættaði Daninn Hans Óttar Lindberg.

Ómar Ingi Magnússon, íþróttamaður ársins á Íslandi í fyrra, er í þriðja sæti með 192 mörk. Bjarki leikur með Lemgo sem er í áttunda sæti þýsku 1. deildarinnar, en Ómar er lykilmaður hjá toppliði Magdeburg.

Ómar Ingi varð markakóngur í deildinni á síðustu leiktíð og Bjarki varð í þriðja sæti. Tímabilið á undan varð Bjarki markahæstur og gæti Íslendingur því orðið markahæstur í þýsku deildinni þriðja árið í röð.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert