Menn gáfu allt í þennan leik

Erlingur Richardsson segir sínum mönnum fyrir verkum í leiknum í …
Erlingur Richardsson segir sínum mönnum fyrir verkum í leiknum í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV, var ótrúlega sáttur með sína menn sem unnu 2. leik úrslitaeinvígisins um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik gegn Val í kvöld. Staðan er því 1:1 í einvíginu en ÍBV vann leikinn í dag 33:31.

Magnaður karakter var það sem skóp sigurinn hjá ÍBV á lokakaflanum en Valsmenn voru með örugga forystu þegar lítið var eftir af leiknum.

„Það var karakterinn, menn sýndu að þeir ætluðu að gefa allt í þennan leik, fyrir framan frábæra áhorfendur og Björn kom sterkur inn. Hann reddaði okkur og kom okkur inn í leikinn, varnarleikurinn var heilt yfir mjög sterkur,“ sagði Erlingur en liðið fékk samt á sig 31 mark.

Rúnar Kárason var ekki með liðinu í dag en Sigtryggur Daði Rúnarsson lék einungis fyrstu mínúturnar, það voru því aðrir sem þurftu að stíga upp.

„Það vantar Tedda líka, það er frábært og við erum ekkert óvanir því að þurfa að pússla liðum saman, það er skemmtilegt verkefni og sýnir hvað menn eru tilbúnir að leggja sig í þetta verkefni, af líf og sál.“

Eyjamenn eru tveimur mörkum undir þegar fimm mínútur eru eftir en hvað tekur síðan við?

Áhorfendur voru vel með á nótunum í Vestmannaeyjum í dag.
Áhorfendur voru vel með á nótunum í Vestmannaeyjum í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Ég eiginlega átta mig ekki almennilega á því, markvarslan frá Birni kom inn en að sama skapi vorum við að fá dæmd á okkur sóknarbrot. Fyrst á Kára og síðan fékk Svenni ekki vítakast, sem teljast tæknifeilar hjá okkur, þar hefðum við getað fengið fríkast eða mark. Ég sá það ekki almennilega en þetta er gríðarlega fljótt að snúast í þessu,“ sagði Erlingur.

Það hallaði þó alls ekki á Eyjamenn í dómgæslunni en línan var töluvert breytt frá síðasta leik í dómgæslunni, í dag var mönnum hent mikið útaf, sérstaklega í upphafi leiks. Bæði lið liðu fyrir þetta en keyrðu samt áfram allan leikinn, þrátt fyrir að vera meira og minna manni færri til skiptis.

Björn Viðar varði mjög vel í síðari hálfleik en Eyjamönnum tókst illa að nýta sér vörslur hans til að jafna leikinn, þrisvar í röð fékk liðið séns á að minnka muninn í eitt mark undir lok leiksins en klikkuðu þar. Eftir það þá komust Eyjamenn nær og klukkuðu Valsmenn áður en þeir sigu fram úr.

„Við ákváðum að hlaupa í þessum leik, við höfum skorað flest mörk í deildinni og það er ekki að ástæðulausu, ég var ánægður með það.“

Hvað tekur við núna hjá ÍBV? Eyjamenn áttu fá svör gegn Val í síðasta leik gegn Val, hverju ætlar liðið að breyta?

„Það er erfitt að breyta þegar Rúnar er úti, Dánjal mætti samt ferskur inn í dag og lagði sitt af mörkum, kom með innspýtingu inn í þetta. Við þurfum að vera áfram klókir.“

Margir héldu að einvíginu væri lokið eftir fyrsta leikinn en Valsmenn höfðu þá unnið sex leiki í röð, það var þó karakter Eyjamanna að lokum sem lokaði þessum leik fyrir ÍBV.

„Það er bara svoleiðis, við erum að keppa á móti efsta liðinu og bikarmeisturunum, við áttum okkur alveg á því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert