Fannst ruðningslínan í leiknum skrítin

Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV, á hliðarlínunni í öðrum leik liðsins …
Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV, á hliðarlínunni í öðrum leik liðsins gegn Val á sunnudag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV, telur liðið hafa bætt sig jafnt og þétt eftir því sem liðið hefur á úrslitaeinvígi þess við Val um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik karla, en í kvöld máttu Eyjamenn sætta sig við 30:31-tap í Origo-höllinni eftir æsispennandi þriðja leik.

„Það var mikil spenna og bara eitt mark í lokin, það gerist þannig lagað ekki mikið jafnara í úrslitakeppni,“ sagði Erlingur í samtali við mbl.is eftir leik.

Leikur kvöldsins var á heildina litið jafnari en fyrstu tveir leikirnir í einvíginu voru.

„Já, frá fyrstu til síðustu mínútu. Við fundum aðeins taktinn í fyrsta leiknum hér í seinni hálfleiknum og erum síðan aðeins búnir að halda ryþmanum upp á við. Svo er bara þreyta hjá báðum liðum og þá er það oft þannig að hlutirnir vilja finna sitt jafnvægi,“ sagði hann.

Í blálokin fékk ÍBV eina lokasókn til þess að freista þess að jafna metin og knýja fram framlengingu. Í henni var hins vegar dæmdur ruðningur á Elmar Erlingsson, son Erlings, og rann leiktíminn svo út. Var um ruðning að ræða?

„Ég sé það reyndar ekki en orðrómurinn segir að svo hafi ekki verið. Mér fannst reyndar þessi ruðningslína í leiknum dálítið skrítin bara almennt,“ sagði Erlingur.

Spurður nánar út í það, hvort varnarmönnum væri að takast að fiska ruðning, sagði hann:

„Já, jafnvel að toga menn með sér niður í gólfið sem er bara stórhættulegt. Að fá ruðning fyrir það finnst mér ekki góð dómgæsla. Það er svona það sem mér fannst kannski það skrítnasta í þessum leik.“

Staðan í einvíginu er nú 2:1, Val í vil, og þarf ÍBV því sigur í næsta leik í Vestmannaeyjum á laugardaginn kemur til þess að knýja fram oddaleik í Origo-höllinni.

„Markmiðið er að komast aftur hingað, það er bara svoleiðis,“ sagði Erlingur að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert