Framarar fyrstir til að sigra Val

Reynir Þór Stefánsson sækir að marki Vals í kvöld.
Reynir Þór Stefánsson sækir að marki Vals í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fram vann gríðarsterkan sigur á Val er liðin mættust í Olísdeild karla í handknattleik í Úlfarsárdal í kvöld. 

Valsmenn voru með yfirhöndina fyrstu mínúturnar og komust í 3:1 og 5:3 en Framarar svöruðu þó alltaf fyrir sig. Þegar tíu mínútur voru liðnar af fyrri hálfleiknum snerist leikurinn Fram í vil. Valsmenn töpuðu sífellt boltanum og Lárus Helgi Ólafsson varði vel í marki Fram, Sakai Motoki gerði þó slíkt hið sama í marki gestanna. 

Þorsteinn Gauti Hjálmarsson var hvað mest áberandi í sókn Framara og kom þeim í sex marka forystu, 16:10 á 23. mínútu. Þeir héldu henni mestmegnis út fyrri hálfleikinn með sterki vörn og góðri sókn og fóru til búningsklefa sex mörkum yfir, 20:14. 

Valsmenn hófu seinni hálfleikinn með miklum látum og minnkuðu muninn í 18:20 með góðum 4:0 kafla. Eftir það rönkuðu Frammarar aðeins við sér og komu stöðunni í 26:21. Valsmenn svöruðu því og minnkuðu munninn minnst í eitt mark en Framarar hleyptu þeim aldrei nær og unnu sterkan 37:34 sigur hér í Úlfarsárdalnum. 

Valur er enn á toppnum með tíu stig eftir sex leiki. Fram jafnar ÍBV að stigum með átta stig en er í þriðja sæti á markatölu.

Fram 37:34 Valur opna loka
60. mín. Björgvin Páll Gústavsson (Valur) varði skot
mbl.is