Ég átti ekki von á neinum sviptingum

Arnar Pétursson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í handbolta.
Arnar Pétursson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í handbolta. mbl.is/Óttar Geirsson

„Ég er bara sáttur, ánægður með hvernig við kláruðum verkefnið í dag og reyndar í heild sinni,“ sagði Arnar Pétursson þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í handbolta eftir 33:24-sigur á Ísrael á Ásvöllum í Hafnarfirði í dag.

Ísland vann líka fyrri leikinn á laugardaginn nokkuð örugglega en þjálfarinn sagði leikinn í dag aðeins erfiðari. „Við vorum lengi að slíta okkur frá þeim og þetta var erfið fæðing í dag, þær voru okkur á vissan hátt erfiðar en við kláruðum þetta vel.  Við lágum vel yfir síðasta leik og áttum ekki von á neinum sviptingum. 

Ég átti alveg von á þetta yrði svipaður leikur og á laugardaginn.  Í gær voru örvhenta skyttan hjá þeim mjög erfið og hélt því áfram í dag en kólnaði sem betur fer.  Þær gefa sér langan tíma í sóknum sínum og eru lengi með boltann, en dómararnir voru nokkuð duglegir við að setja um höndina til að gefa merki um leiktöf, en stundum náðu þær að svæfa okkur og fengu þá svolítið ódýr mörk.“

Ísland er þar með komið í umspil um að komast á HM en ekki ljóst hverjir eru næstu mótherjar en þjálfarinn sagði samt ljóst að næsti leikur verði ekki auðveldur. „Það verður dregið tuttugasta nóvember en klárt að við fáum eitthvað af þessum betri liðum. 

Umspilið fyrir heimsmeistaramótið er mjög krefjandi og verður erfitt en líka skemmtilegt.  Það verður ljóst eftir Evrópukeppnina sem er núna í gangi hvaða lið verða í pottinum, eitthvað af liðunum sem eru að spila þar, en eins og ég segi þá verður þetta krefjandi og erfitt en vonandi á sama tíma skemmtilegt,“ sagði Arnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert