Yfirgefur danska félagið eftir eitt tímabil

Daníel Freyr í leik með Lemvig.
Daníel Freyr í leik með Lemvig. Ljósmynd/Lemvig

Daníel Freyr Andrésson, handknattleiksmaður hjá Lemvig í Danmörku, mun yfirgefa félagið eftir leiktíðina. Danska félagið greinir frá þessu í dag, en Daníel hefur varið mark liðsins á tímabilinu.

Hann kom til félagsins frá Guif í Svíþjóð fyrir yfirstandandi leiktíð og verður því aðeins eitt tímabil hjá Lemvig. Ekki er ljóst hvert næsta félag Daníels verður. 

Samkvæmt frétt á heimasíðu félagsins vill Daníel fara í félag þar sem hann fær að spila meira, en hann hefur mikið þurft að verma varamannabekkinn hjá Lemvig á leiktíðinni. 

Daníel er uppalinn hjá FH og varð Íslandsmeistari með liðinu árið 2011. Eftir veru hjá Ricoh í Svíþjóð og SönderjyskE í Danmörku lék hann með Val á árunum 2019 til 2020 en hélt síðan aftur erlendis.

Tímabilið hjá Lemvig hefur verið erfitt og er liðið í mikilli fallbaráttu, en Lemvig er í næstneðsta sæti með tíu stig eftir 19 leiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert