„Þær áttu bikarinn skilið“

Ágúst Jóhannsson, þjálfari Vals, á hliðarlínunni í dag.
Ágúst Jóhannsson, þjálfari Vals, á hliðarlínunni í dag. mbl.is/Óttar

„Fyrir það fyrsta vil ég óska ÍBV til hamingju, þær áttu bikarinn skilið,“ segir Ágúst Jóhannsson, þjálfari Vals, að bikarúrslitaleik liðsins gegn ÍBV loknum en Valur þurfti að láta í minni pokann, 31:29.

Slakur varnarleikur

„Ég var ekki ánægður með varnarleikinn sem var mjög slakur og við erum að hleypa þeim í allt of auðveld skot og þar af leiðandi er markvarslan lítil og við fáum lítið af hraðaupphlaupum.

Þetta liggur fyrst og fremst í slökum varnarleik en svo förum við illa með upplögð marktækifæri hvað eftir annað til að byrja með í leiknum og það er dýrt á móti jafn góðu liði og ÍBV,“ segir Ágúst.

Allir lögðu sig fram

Hann segir ekkert hafa vantað upp á viljann í sínu liði.

„Það lögðu sig allir 110 prósent fram. Við vorum að spila á móti frábæru liði með frábærar skyttur og við vorum ekki að mæta þeim eins og við ætluðum að gera og þær fengu of mikið af auðveldum mörkum.“

Ágústi fannst atvikið þegar Mörtu Wawrzynkowska, markmanni ÍBV, var vikið af velli í fyrri hálfleik ekki hafa haft mikil áhrif á leikinn.

„Sú sem kom inn varði mjög vel en hugsanlega voru mínir leikmenn kærulausir á hana.“

„Erum bara klaufar“

Ágúst segir Valskonur hafa verið klaufa að vera ekki þremur til fjórum mörkum yfir í hálfleik.

„ Við tökum ótímabær skot í lok fyrri hálfleiks og erum bara klaufar. Við erum svo komin þremur mörkum yfir í byrjun seinni hálfleiks en þá er eins og við förum því miður að taka slakar ákvarðanir sóknarlega og förum að falla aftar í vörninni og það er erfitt á móti ÍBV,“ segir Ágúst Jóhannsson, þjálfari Vals.

mbl.is