ÍR kveikti í fallbaráttunni

Bjarki Steinn Þórisson sækir að marki Stjörnunnar í kvöld.
Bjarki Steinn Þórisson sækir að marki Stjörnunnar í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Magnússon

ÍR-ingar kveiktu heldur betur í fallbaráttunni í úrvalsdeild karla í handknattleik með heimasigri á Stjörnunni, 28:27, í Breiðholtinu í kvöld. 

Stjarnan skoraði fyrsta mark leiksins en mikið jafnræði var á milli liðanna í fyrri hálfleik. ÍR-ingar náðu mest tveggja marka forystu nokkrum sinnum, og meðal annars á lokasekúndum fyrri hálfleiksins þar sem ÍR kom sér í 15:13. 

Sama má segja um seinni hálfleikinn en ÍR var annaðhvort rétt svo yfir eða staðan jöfn, en Stjörnunni tókst aldrei að ná forystunni nema í byrjun leiks. 

ÍR var í vænlegri stöðu þegar sex mínútur voru eftir, 26:23, en Stjarnan minnkaði muninn í eitt er mínúta var eftir, 28:27. ÍR-ingar héldu hinsvegar þeirri forystu út og unnu gífurlega mikilvægan sigur. 

Viktor Sigurðsson var markahæstur í liði ÍR með níu mörk en Leó Snær Pétursson skoraði jafnmörg fyrir Stjörnuna. Ólafur Rafn Gíslason var sterkur í marki ÍR með 13 varin skot.

ÍR er nú með tíu stig í næstneðsta sæti, einu minna en KA og því æsispennandi lokaumferðir eftir. Stjarnan er í sjötta sæti með 21 stig. 

Mörk ÍR: Viktor Sigurðsson 9, Arnar Freyr Guðmundsson 7, Eyþór Ari Waage 5, Dagur Sverrir Kristjánsson 4, Bjarki Steinn Þórisson 2, Sveinn Brynjar Agnarsson 1.

Varin skot: Ólafur Rafn Gíslason 13.

Mörk Stjörnunnar: Leó Snær Pétursson 9, Björgvin Þór Hólmgeirsson 6, Pétur Árni Hauksson 4, Þórður Tandri Ágústsson 4, Arnar Freyr Ársælsson 2, Jóhann Karl Reynisson 1, Hergeir Grímsson 1, Gunnar Steinn Jónsson 1. 

Varin skot: Sigurður Dan Óskarsson 9, Adam Thorstensen 1.

mbl.is