Víkingur krækti í markvörð

Daníel Andri Valtýsson í leik með Gróttu.
Daníel Andri Valtýsson í leik með Gróttu. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Handknattleiksdeild Víkings úr Reykjavík hefur samið við markvörðinn Daníel Andra Valtýsson um að leika með liðinu næstu tvö tímabil.

Daníel Andri kemur frá Gróttu, þar sem hann var með 32 prósent markvörslu að meðaltali í leik er liðið hafnaði í níunda sæti úrvalsdeildarinnar á nýafstöðnu tímabili.

Víkingur vann sér inn sæti í úrvalsdeild með æsilegum sigri í oddaleik gegn Fjölni í umspili um laust sæti og verður því nýliði í deildinni á næsta tímabili.

Daníel Andri gekk til liðs við Gróttu sumarið 2019 og var því að ljúka sínu fjórða tímabili á Seltjarnarnesi. Hann er uppalinn hjá Val.

„Daníel kemur til með að styðja og styrkja markmannsteymið okkar í heilbrigðri samkeppni enda reynslumikill og frábær markmaður. Við bjóðum Daníel hjartanlega velkominn í Víking,“ sagði meðal annars í tilkynningu frá handknattleiksdeild Víkings.

mbl.is