Gamla ljósmyndin: 400 landsleikja maður

mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Af og til dúkkar upp umræða á samfélagsmiðlum um hversu vel skuli gera við knattspyrnufólk sem nær þeim áfanga að leika 100 A-landsleiki fyrir Ísland, hvernig að því skuli staðið eða hversu hratt það eigi að ganga fyrir sig. Ef samfélagsmiðlar hefðu verið komnir til sögunnar árið 2005 að ráði hefði verið áhugavert að heyra hversu vel netverjar hefðu viljað gera við Guðmund Hrafnkelsson fyrir hans þjónustu. 

Guðmundur náði þeim lygilega áfanga að leika 400 A-landsleiki fyrir Ísland í handknattleik en alls urðu A-landsleikirnir 407 talsins og er hann langleikjahæstur í sögu handboltalandsliðanna. 

Ferill Guðmundar í marki landsliðsins spannaði tæp tuttugu ár frá 1986 til 2005. Sá fyrsti var gegn Sovétríkjunum á Friðarleikunum í Moskvu árið 1986 og sá síðasti vináttulandsleikur gegn Svíþjóð hér heima árið 2005. 

Á meðfylgjandi mynd er Guðmundur Hrafnkelsson að þakka fyrir sig að loknum síðasta landsleiknum gegn Svíum í Hafnarfirði hinn 6. júní 2005. Ljósmyndarinn Þorkell Þorkelsson var í Kaplakrika og myndaði augnablikið af kostgæfni fyrir Morgunblaðið og mbl.is. 

„Það var virkilega gaman að kveðja landsliðið með sigri á Svíum og satt best að segja held ég að þetta hafi verið minn fyrsti og eini sigur á þeim,“ sagði Guðmundur í samtali við nafna sinn Hilmarsson í Morgunblaðinu daginn eftir en Ísland hafði betur 29:26. 

Guðmundur Hrafnkelsson lék 400. landsleikinn á stóra sviðinu eða Ólympíuleikjunum árið 2004 sem fóru fram í Aþenu. Þar var hann heiðraður sérstaklega og tilkynnt að um met væri að ræða í íþróttinni. Franski snillingurinn Jackson Richardson sló landsleikjamet Guðmundar. 

Fimm landsliðsþjálfarar stýrðu Guðmundi á þessum tíma: Bodgan Kowalzcyk, Þorbergur Aðalsteinsson, Þorbjörn Jensson, Guðmundur Guðmundsson og Viggó Sigurðsson í lokaleiknum. 

Guðmundur lék tvívegis um verðlaum á stórmótum með íslenska landsliðinu. Á Ólympíuleikunum í Barcelona 1992 og á EM 2002 þar sem Guðmundur fór mikinn í markinu. Hann var einnig í liðinu sem náði besta árangri Íslands á HM frá upphafi, eða í í Japan 1997,  þar sem Ísland varð í 5. sæti og lék megnið af úrslitaleiknum þegar Ísland sigraði í B-keppninni árið 1989. Guðmundur er þrefaldur ólympíufari og sextán ár liðu á milli leika hjá honum því hann var í liðinu árið 1988, 1992 og loks 2004. 

Líklega eru tiltölulega fáir sem vita að Guðmundur kemur úr Fylki. Eftir það lék hann með Breiðabliki, FH, Val og Aftureldingu hér heima en erlendis með Nordhorn og Kronau/Östringen í Þýskalandi og Conversano á Ítalíu. Nafni Kronau/Östringen var síðar breytt í Rhein Neckar Löwen. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert