Gamla ljósmyndin: Á landsliðsæfingu

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Meðfylgjandi mynd birtist á bls 4 í Morgunblaðinu sunnudaginn 2. nóvember árið 1997 eða á 84 ára afmælisdegi blaðsins. 

Birtist hún undir fyrirsögninni: Á landsliðsæfingu.

Í myndatextanum stendur: „Landslið Íslands í handbolta keppir öðru sinni við lið Litháa í íþróttahúsinu við Kaplakrika í Hafnarfirði í kvöld, sunnudagskvöld. Leikurinn er liður í Evrópukeppni landsliða. Íslenska liðið tapaði fyrri leiknum með þremur mörkum sl. miðvikudag. Landsliðsmennirnir æfðu í Kaplakrika á föstudag, sjálfsagt til að tryggja að sagan frá Litháen endurtaki sig ekki. Ungur stuðningsmaður liðsins stóð utan við glervegg og fylgdist spenntur með.“

Ungi drengurinn sem fylgist spenntur með landsliðinu átti sjálfur eftir að skila sér upp í A-landsliðið og lék á dögunum fyrir Íslands hönd á HM í Egyptalandi.

Er þetta markvörðurinn Ágúst Elí Björgvinsson sem var tveggja og hálfs árs þegar myndin var tekin. Var hann að heimsækja afa sinn, Birgi Björnsson, sem þá var umsjónarmaður í Kaplakrika en fékk um leið tækifæri til að fylgjast með þeim Guðmundi Hrafnkelssyni og Bergsveini Bergsveinssyni sem mynduðu markvarðapar landsliðsins á þessum árum. 

Myndina tók Kjartan Þorbjörnsson eða Golli sem lengi myndaði fyrir Morgunblaðið og mbl.is. Hefur hann vafalítið verið sendur til að mynda landsliðsmennina á æfingu en náði þarna í góðan meðafla.

mbl.is