Gamla ljósmyndin: Leikið um verðlaun fyrir tuttugu árum

Morgunblaðið/Brynjar Gauti

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Ísland var ekki langt frá því að spila um verðlaun á EM karla í handknattleik í Búdapest og hafnaði í 6. sæti.

Tuttugu ár eru liðin síðan Ísland lék um verðlaun á EM karla í handknattleik í Svíþjóð og þá undir stjórn sama þjálfara, Guðmundar Þ. Guðmundssonar.

Guðmundur hafði þá tekið við landsliðinu árið áður en alls hefur hann þrisvar sinnum ráðið sig til starfa sem landsliðsþjálfari Íslands.

Átta árum síðar fór íslenska liðinu skrefinu lengra undir stjórn Guðmundar og vann til bronsverðlauna á EM í Austurríki 2010. 

Meðfylgjandi mynd er frá leiknum um bronsverðlaunin í Stokkhólmi árið 2002 en Danmörk lagði þá Ísland að velli 29:22. Einar Þorvarðarson og Guðmundur baða út höndunum og halda fullkomnum takti að því er virðist eins og keppendur í samhæfðum æfingum. 

Á myndinni eru einnig frá vinstri Selfyssingurinn Gústaf Bjarnason, Gróttumaðurinn Halldór Ingólfsson og Eyjamaðurinn Gunnar Berg Viktorsson. 

Myndina tók Brynjar Gauti sem myndaði EM 2002 í Svíþjóð fyrir Morgunblaðið og mbl.is. 

Á EM 2002 jafnaði Ísland sinn besta árangur á stórmóti en fram að því hafði Ísland einu sinni komist í undanúrslit og var það á Ólympíuleikunum árið 1992 undir stjórn Þorbergs Aðalsteinssonar og var Einar Þorvarðar þá aðstoðarþjálfari. 

mbl.is