Gamla ljósmyndin: Þar lágu Danir í því

Morgunblaðið/Bjarni Eiríksson

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um.

Á heimsmeistaramótinu í handknattleik í Sviss árið 1986 náði karlalandslið Íslands árangri sem þjóðin tók eftir. Ísland hafnaði í 6. sæti og liðið vann sér inn vissan sess í þjóðarsálinni. Liðinu hafði tekist að fylgja eftir óvæntum árangri á Ólympíuleikunum 1984 þegar liðið varð einnig í 6. sæti. Með árangrinum í Sviss tryggði liðið sig inn á Ólympíuleikana 1988 og náði besta árangri Íslands á HM frá upphafi. Í dag er besti árangur Íslands 5. sæti en hann náðist í Japan ellefu árum síðar.  

Markvörðurinn Einar Þorvarðarson átti stóran þátt í góðum árangri Íslands á HM 1986. Eflaust er mörgum enn í fersku minni þegar hann varði vítakast með tilþrifum á lokamínútunni í sigri á Rúmenum.

Myndin er tekin eftir sætan sigur á Dönum í Luzern í Sviss 4. mars 1986 af Bjarna Eiríkssyni og birtist í Morgunblaðinu daginn eftir. 

Ísland sigraði 25:16 eftir að staðan hafði verið 10:10 að loknum fyrri hálfleik. Var þetta stærsti sigur Íslands á stórmóti fram að þessu og sá fyrsti gegn Dönum á HM. 

Einar varði 15 skot í leiknum þar af tvö vítaköst. Varði hann níu skot í síðari hálfleik þegar Íslendingar burstuðu Dani og fékk því aðeins á sig sex mörk í síðari hálfleik. 

„Allir skiluðu sínu, en enginn var betri en Einar Þorvarðarson markvörður. Hann var hinn óyfirstíganlegi veggur með góða vörn fyrir framan sig,“ skrifaði hinn þrautreyndi blaðamaður Ágúst Ingi Jónsson meðal annars í umfjöllun sinni um leikinn í Morgunblaðinu en Ágúst starfar enn á blaðinu. 

„Eftir þennan leik í kvöld þori ég að fullyrða að Einar Þorvarðarson er einn besti markvörður í heimi,“ sagði Atli Hilmarsson sem einnig lék afar vel á HM í Sviss og var einmitt markahæstur í leiknum gegn Dönum. 

Einar Þorvarðarson var landsliðsmarkvörður megnið af níunda áratugnum og þrívegis var hann á meðal tíu efstu í kjörinu á íþróttamanni ársins hjá Samtökum íþróttafréttamanna. 

Árið 2008 hlaut Einar fálkaorðuna fyrir störf sín í þágu íþróttarinnar á Íslandi. Eftir leikmannaferilinn þjálfaði Einar lið Selfoss, Aftureldingar og Fylkis og var aðstoðarþjálfari landsliðsins áður en hann varð framkvæmdastjóri HSÍ og sinnti því starfi í rúm fimmtán ár. 

mbl.is