Gamla ljósmyndin: Síðasta mót Bogdans

Íþrótta­deild mbl.is og Morg­un­blaðsins held­ur áfram með nýj­an dag­skrárlið, sem fór í loftið fyr­ir tveimur vikum, þar sem grúskað er í mynda­safni Morg­un­blaðsins og mbl.is. 

Pólverjinn Bogdan Kowalczyk á hliðarlínunni í leik gegn Kúbu á HM karla í handknattleik í Tékkóslóvakíu árið 1990.

HM í Tékkó var síðasta stórmót Bogdans sem landsliðsþjálfari Íslands en hann hafði farið með íslenska landsliðið á HM 1986 sem þá var á fjögurra ára fresti og Ólympíuleikana 1984 og 1988. Hafnaði liðið í 6. sæti 1984 og 1986 og 8. sæti 1988. 

Ísland hafnaði í 10. sæti á HM 1990. Leikurinn gegn Kúbu var sá fyrsti hjá íslenska liðinu í mótinu og vann Ísland 27:23.

Bogdan kom til Íslands haustið 1978 og réð sig til Víkings þar sem hann þjálfaði með góðum árangri. Þjálfaði hann á Íslandi í tólf ár og óumdeilt er að áhrif hans á íþróttina hérlendis voru geysilega mikil. Bogdan var sæmdur fálkaorðunni af Vigdísi Finnbogadóttur þáverandi forseta árið 1989 eða sama ár og Ísland vann B-keppnina í Frakklandi undir hans stjórn. 

Á myndinni má einnig sjá tvo máttarstólpa íslenska landsliðsins á þessum árum þá Kristján Arason og Alfreð Gíslason auk liðsstjórans Davíðs Sigurðssonar. Kristján og Alfreð hættu að leika með landsliðinu eftir HM 1990 eins og margir lykilmenn af þeirra kynslóð. Má þar nefna  Einar Þorvarðarson, Þorgils Óttar Mathiesen, Guðmund Guðmundsson, Sigurð Gunnarsson
og fleiri. Kristján gaf þó kost á sér í B-keppninni 1992 og lék þá í vörninni en að öðru leyti markaði mótið í Tékkóslóvakíu þáttaskil hjá landsliðinu.

Alfreð lék í þessum leik á móti Julian Duranona en fimm árum síðar fékk Alfreð hann til að leika undir sinni stjórn hjá KA.

mbl.is

Bloggað um fréttina