Verð hér allavega eitt ár í viðbót

Elín Rósa Magnúsdóttir í átökum í gærkvöldi.
Elín Rósa Magnúsdóttir í átökum í gærkvöldi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Handknattleikskonan Elín Rósa Magnúsdóttir, nýkrýndur Íslandsmeistari, kveðst ekki reikna með því að halda út í atvinnumennsku fyrir næsta tímabil en útilokar ekki að það geti gerst á næsta ári.

Elín Rósa er 21 árs leikstjórnandi sem hefur vaxið ásmegin undanfarin ár enda lykilmaður hjá þreföldum meisturum Vals og búin að vinna sér fast sæti í íslenska landsliðinu, þar sem hún lék meðal annars á HM 2023.

„Ég hugsa að ég verði hérna allavega eitt ár í viðbót. Mér líður rosalega vel hérna og er búin að vera í nokkur ár. Ég fékk líka að vera í yngri flokkunum hérna, sem var frábært.

Ég hef þróað minn leik sem leikstjórnandi og fengið mikið traust frá Gústa [Ágústi Þór Jóhannssyni þjálfara]. Ég er ótrúlega sátt við það,“ sagði Elín Rósa í samtali við mbl.is eftir að Valur tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í gærkvöldi.

Valur hefur nú orðið Íslandsmeistari tvö ár í röð og setur hún stefnuna á að vinna til titilsins í þriðja skiptið í röð á næsta ári.

„Það væri óskandi. Það væri geggjað,“ sagði Elín Rósa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka