Allir leggjast á eitt til að halda gott landsmót

Fáksmenn hafa notað tímann vel og undirbúið glæsilegt mótssvæði fyrir Landsmót hestamanna 2018. „Við gáfum okkur ráðrúm til að spjalla og hugsa málin, og gátum byrjað að framkvæma með markvissum hætti síðastliðin tvö-þrjú ár með dyggum stuðningi Reykjavíkurborgar,“ segir Hjörtur Bergstað. „Við erum í raun búin að taka allt svæðið í gegn og laga það að nútímakröfum hestaíþrótta. Miklar breytingar hafa átt sér stað síðan landsmót var síðast haldið á þessum sama stað árið 2012.“

Hjörtur er formaður Hestamannafélagsins Fáks, en Landsmótið nú er það fyrsta þar sem Fákur annast alla framkvæmd mótsins frekar en bara að bjóða aðstöðu. „Það hefur ýmsa kosti í för með sér að mótið sé alfarið á herðum Fáks. Við þurfum að halda vel á spilunum enda sitjum við uppi með það tap eða hagnað sem verður af mótinu, og þá er á margan hátt betra að halda utan um vel heppnað mót þegar ekki eru of margir sem halda um stýrið,“ segir hann. „Af ýmsum ástæðum hefur rekstur landsmóta hestamanna ekki gengið vel upp á síðkastið og skiljanlegt er að aðstandendur mótsins hafi verið tilbúnir að prófa annars konar rekstrarmódel.“

Að sögn Hjartar eru Fáksmenn brattir og bjartsýnir. „Við höfum fulla trú á að það muni reynast vel að halda landsmótið hér í Reykjavík og þykir ánægjulegt að geta boðið íbúum höfuðborgarsvæðisins, landsbyggðarfólki og erlendum gestum að upplifa hér í Víðidal það sem verður stærsti íþróttaviðburður Íslands þetta árið.“

Svæðið verið tekið í gegn

Svæði Fáks hefur verið tekið í gegn frá því smæsta til hins stærsta og nefnir Hjörtur sem dæmi að búið sé að leggja rafmagn og ljósleiðara umhverfis keppnisvellina svo að auðveldara verði að sinna æ meiri tæknilegum kröfum í kringum allt mótshald. „Mótið varð okkur líka hvati til að setja meiri slagkraft í viðhald og viðgerðir, en sýnilegustu breytingarnar snúa að sjálfu mótssvæðinu þar sem m.a. var byggð mön svo að skeiðbrautin minnir um margt á rómverskt hringleikahús. Kynbótasýningavöllurinn var líka færður til og umhverfið þar allt um kring lagfært,“ telur Hjörtur upp. „Þökk sé myndarlegum styrk frá Reykjavíkurborg höfum við líka getað tekið reiðhöllina okkar í gegn í fyrsta sinn frá því að þetta 30 ára mannvirki var reist, og lítur höllin núna út eins og ný. Búið er að fara yfir allt svæði Fáks frá A til Ö, með allsherjar hreingerningu og lagfæringum; málað, dyttað að og grasið slegið, og ekkert að vanbúnaði.“

Hjörtur segir að það að hafa fengið að hýsa landsmót hafi eflt starfsemi Fáks til muna. „Þetta hefur verið greinileg vítamínsprauta fyrir alla starfsemi félagsins og uppbygginguna á svæðinu, orðið okkur hvati til að ráðast í verkefni sem hafa fengið að sitja á hakanum, og gerir okur reiðubúin að sinna starfseminni af miklum myndarbrag að mótinu loknu.“

Aðstaða eins og best verður á kosið

Hinn almenni félagsmaður hefur fengið að taka virkan þátt í undirbúningi landsmótsins og voru haldnir reglulegir fundir til að þétta raðirnar og kalla eftir hugmyndum og athugasemdum vegna viðburðarins. „Við höfum haldið reglulega hreinsunar- og viðhaldsdaga sem hafa verið með skemmtilegustu viðburðunum í félagslífi Fáks. Þar hafa allir lagst á eitt og eftir að hafa tekið til hendinni höfum við grillað og haft það huggulegt,“ segir Hjörtur. Margir Fáksmenn munu bjóða fram vinnu sína á mótinu og hjálpa félaginu að taka vel á móti þeim þúsundum gesta sem væntanlegir eru, og að auki leyfa Fáksmenn keppendum að fá afnot af hesthúsunum. „Við mæltumst til þess við félagsmenn að bjóða keppendum aðstöðu í hesthúsum sínum rétt eins og á mótinu 2012 og hefur verið vel í það tekið. Veitir þetta keppendum mikil þægindi enda stutt að skjótast eftir hestunum þegar þeirra er þörf en þess á milli hægt að njóta tímans á landsmótssvæðinu til að fylgjast með sýningunum, skoða allt það sem er um að vera utan keppnisvallanna og eiga ánægjulega samveru með öðrum hestamönnum.“

Lúxus að hafa hesta svona nálægt borgarkjarna

Fákur hefur alla burði til að halda gott landsmót enda félagið fjölmennt og á besta stað. Hjörtur segir félagsmenn á bilinu 1.400 til 1.500 talsins og eiga þeir samtals í kringum 3.000 hesta. Starfsemin dreifist yfir þrjú svæði: Sprengisand við gatnamót Bústaðavegar og Reykjanesbrautar, þar sem m.a. er blómlegt hestastarf fyrir eldri borgara, æfingasvæðið uppi í Víðidal og loks nýtt svæði sem verið er að byggja upp í Almannadal.

Að sögn Hjartar er mjög sjaldgæft að finna hesthúsabyggð svona nálægt borgarkjarna og er það mikill lúxus fyrir borgarbúa að geta hæglega skotist upp í hesthús fyrir vinnu, í hádegishléinu eða í lok dags til að huga að hestunum. „Það er helst í Hyde Park í London að finna má eitthvað þessu líkt og þá aðallega fyrir hesta hennar hátignar. Eru ekki nema 50 metrar í næsta íbúðahús og aðeins 500 metrar upp í ósnortna náttúru Heiðmerkur. Návíginu við borgina fylgir þó að við þurfum að deila fallegum útivistarsvæðum og náttúruparadís með gangandi, skokkandi, hjólandi og akandi vegfarendum og verða allir að gæta þess að sýna öðrum tillitssemi.“

Leggja áherslu á unga fólkið

Hjá hestamannafélögum eins og Fáki má greina vel þróunina í hestasportinu. Hjörtur segir að fólk tengist Fáki iðulega mjög sterkum böndum, og margir sinni hestamennskunni af lífi og sál, en engu að síður geti ýmsar ytri aðstæður haft áhrif á það hvort fjölgi eða fækki í félaginu. „Við fundum t.d. fyrir ákveðnu höggi, eins og aðrir, árið 2008. Þá minnkuðu margir við sig og byrjuðu að stunda hestamennskuna með öðrum hætti en áður og þurftu að sýna ákveðið aðhald.“

Til að bregðast við ástandinu í samfélaginu ákvað Fákur að leggja sitt af mörkum. „Við vildum stuðla að nýliðun hjá yngstu aldurshópunum og ákváðum árið 2013 að nota félagshesthúsið með þeim hætti að börnum og ungmennum á aldrinum 10 til 21 árs stendur þar til boða að fá lánaða hesta og stunda hestamennsku með aðstoð reiðkennara. Þar geta þau verið hjá okkur í 2-3 ár, nánast á kostnaðarverði, til að stíga sín fyrstu skref inn í heim íslenska hestsins,“ útskýrir Hjörtur. „Í öllu ungmennastarfinu gætum við þess að gera hestamennskuna fjárhagslega aðgengilega, og ekki of flókna; svo að tíminn sem börnin eru hjá okkur snúist um að njóta samverunnar við hestinn.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert