Seinkaði vegna lyfjaprófs

Aron Einar Gunnarsson var kallaður í lyfjapróf eftir leikinn við …
Aron Einar Gunnarsson var kallaður í lyfjapróf eftir leikinn við Argentínu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu kom aftur til Kabardinka við Svartahafið um miðnættið í gærkvöld eftir að hafa gert jafntefli við Argentínu, 1:1, í fyrsta leik sínum á heimsmeistaramótinu í Moskvu.

Flogið var frá Moskvu eftir leikinn en brottförin tafðist hinsvegar talsvert og ástæðan var sú að tveir leikmanna Íslands voru kallaðir í lyfjapróf, eins og gert er eftir alla leiki í keppninni. Aron Einar Gunnarsson og Ólafur Ingi Skúlason urðu fyrir valinu að þessu sinni en tilkynnt er á 75. mínútu leiks hvaða tveir hafa verið dregnir út af lyfjaeftirlitinu.

Flugvél íslenska liðsins komst ekki á loft á áætluðum tíma vegna tafanna og varð að bíða eftir því að pláss losnaði fyrir flugtak. Leikmennirnir sátu því úti í vél í einar 40 mínútur áður en þeir gátu farið á loft.

Nóg pláss var í vélinni og sjúkraþjálfarar og nuddarar liðsins gátu liðsinnt þeim leikmönnum sem á þurftu að halda á ríflega tveggja klukkutíma fluginu suður til Gelendzhik.

Liðið var síðan að ljúka léttri æfingu rétt í þessu en í henni tóku þátt þeir leikmenn sem voru ekki í byrjunarliðinu í gær. Hinir skokkuðu létt og teygðu og voru í meðferðum sjúkraþjálfara eftir þörfum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert