Mínir menn á Hlíðarenda taka þetta

Hægri bakvörðurinn Birkir Már Sævarsson var í góðum gír fyrir æfingu íslenska landsliðsins í Kabardinka í morgun en Birkir og samherjar hans í landsliðinu eru nú komnir á fullt í undirbúningi sínum fyrir leikinn gegn Nígeríu sem verður í Volgograd á föstudaginn.

„Við fengum einn rólegan dag á æfingu eftir leikinn við Argentínu og svo alveg frídag í gær svo ég held að við séum orðnir þokkalega góðir í líkamanum og ferskir á ný. Við afgreiddum leikinn við Argentínu strax daginn eftir og hófum undirbúning fyrir leikinn á móti Nígeríu.

Það lítur út fyrir að þetta verði allt öðruvísi leikur heldur en leikurinn á móti Argentínu. Nígeríumennirnir spila töluvert öðruvísi og það er meiri kraftur í þeim. Þeir eiga það til að vaða á liðin og eru beinskeyttir. Það verður örugglega heldur meiri „fætingur“. Þeir verða sennilega bara að vinna okkur til að vera áfram með í mótinu. Við eigum því von á þeim dýrvitlausum og við þurfum bara að mæta því almennilega,“ sagði Birkir Már, sem leikur sem kunnugt er með Val. Valur á einmitt að taka á móti FH í Pepsi-deildinni annað kvöld.

„Þetta verður mjög erfiður leikur fyrir mína menn. FH-ingarnir virðast vera að vakna aðeins til lífsins en Valsmenn eru búnir að vera góðir í síðustu leikjum. Þetta verður hörkuleikur en ég held að mínir menn á Hlíðarenda hljóti að taka þetta að lokum. Ég horfði á síðasta leik minna manna í fundarsalnum á hótelinu og ég mun reyna að horfa á leikinn á morgun líka,“ sagði Birkir en allt viðtalið við hann má sjá í spilaranum hér að ofan.

Birkir Már Sævarsson.
Birkir Már Sævarsson. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert