Við lögðum svo hart að okkur

Ivan Rakitic fagnar sigrinum gegn Rússum í kvöld.
Ivan Rakitic fagnar sigrinum gegn Rússum í kvöld. AFP

Ivan Rakitic, miðjumaðurinn snjalli í liði Króata, vonast til að Króatar geti farið lengra á HM eftir að hafa jafnað árangur liðsins frá árinu 1998 en þá komust Króatar í undanúrslit á HM.

Rakitic skaut Króötum áfram í undanúrslitin þegar hann skoraði úr síðustu vítaspyrnu sinna manna í leiknum gegn Rússum í átta liða úrslitunum í kvöld.

„Við lögðum svo hart að okkur og gáfum allt sem við áttum til að komast áfram í undanúrslitin. Við viljum gleðjast þessum sigri og gera atlögu að því að gera betur en liðið gerði 1998.

Það sem liðið gerði þá var frábært en við viljum skrifa okkar eigin sögu og gleðjast því sem við höfum gert sem er mjög jákvætt,“ sagði Rakitic eftir leikinn gegn Rússum í kvöld en Króatar mæta Englendingum í undanúrslitunum á miðvikudaginn.

mbl.is