Vonar í fyrsta sinn á ævinni að Frakkar tapi

Thierry Henry, aðstoðarþjálfari belgíska landsliðsins.
Thierry Henry, aðstoðarþjálfari belgíska landsliðsins. AFP

Frakkinn Thierry Henry verður í óvenjulegri stöðu þegar Frakkar og Belgar eigast við í fyrri undanúrslitaleiknum á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu í Pétursborg annað kvöld.

Í fyrsta skipti á ævinni vonast Henry til þess að Frakkar tapi því hann er aðstoðarþjálfari belgíska landsliðsins og þeir eru fjölmargir sem þakka honum fyrir framgang belgíska landsliðsins á HM og þá ekki síst hvað sóknarleikinn varðar. Belgar hafa skorað flest mörk allra liða á HM eða 14 talsins.

Henry er markahæsti leikmaður franska landsliðsins frá upphafi en hann skoraði 51 mark í 123 leikjum með Frökkum. Hann varð heimsmeistari með Frökkum á heimavelli árið 1998 og Evrópumeistari tveimur árum síðar.

„Vissulega vildi ég frekar að hann væri með okkur og gæfi mér góð ráð en við getum ekki verið afbrýðisamir. Það verður skrýtið að hafa hann á móti okkur í þessum leik og þetta verður mjög sérstakur leikur fyrir hann,“ segir Oliver Giroud, framherji franska landsliðsins.

mbl.is