„Þetta er kraftaverk“

Zlatko Dalic landsliðsþjálfari Króata.
Zlatko Dalic landsliðsþjálfari Króata. AFP

Zlatko Dalic landsliðsþjálfari Króatíu í knattspyrnu telur að það sé kraftaverk að lærisveinar sínir séu komnir í undanúrslitin á HM en Króatar leika gegn Englendingum í undanúrslitunum á Luzhniki leikvanginum í Moskvu annað kvöld.

Króatar höfðu betur á móti Dönum í vítaspyrnukeppni í 16-liða úrslitunum og þeir léku sama leik gegn Rússum í átta liða úrslitunum um síðustu helgi.

„Ég trúði því og nú þegar við erum eitt af bestu fjórum liðunum erum við hissa á því, allt í lagi, það er kraftaverk,“ segir Dalic sem tók við þjálfun landsliðsins í október á síðasta ári eftir að Anté Catic var rekinn úr starfi. Undir stjórn Dalic höfnuðu Króatar í öðru sæti í undankeppninni á eftir Íslendingum og tryggðu sér farseðilinn í úrslitakeppni HM með því að hafa betur á móti Grikkjum í umspili um sæti á HM.

„Þetta er besti og dásamlegasti tími minn á ferlinum og eitthvað sem mig dreymdi um en mesta þakklætið er til leikmanna okkar. Þeir eru allir frábærir,“ segir Dalic en Króatar lögðu Íslendinga 2:1 í lokaumferð riðlakeppninnar í Rostov og sendu þar með Íslendinga heim frá HM.

 

mbl.is